Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar hvetur fólk til þess að hlaða öll fjarskiptatæki sín, farsíma og tölvur því ekki er útlokað að til rafmagnsstöðvunar komi á landinu þegar óveðrið skellur á af fullum krafti síðar í dag.
Hrafnkell V. Gíslason segir að í kjölfar óvissustigsins sem lýst var yfir í morgun hafi stofnunin haft samband við öll fjarskiptafyrirtæki landsins og bent þeim á að gera ráðstafanir.
„Ef veiturafmagn fer af á einhverjum stað á landinu þá dettur rafmagn út en þá hafa fjarskiptasendar varaafl í fjórar klukkustundir að lágmarki. Ef síminn er tengdur inn á beini (e. router) þá dettur hann út. Þá er heimilið, ef það er rafmagnslaust, án síma,“ segir Hrafnkell.
Hafi fólk aftur á móti farsíma á að vera hægt að ná sambandi. Ef síminn er aftur á móti á gamla koparkerfinu helst straumur á símanum. Hrafnkell bendir á að hægt er að setja hleðslutæki í samband í bílum ef til neyðar kemur.