Spáir 60 m/s í hviðum

Lægðin er að færast upp að suðurströnd landsins.
Lægðin er að færast upp að suðurströnd landsins. Af www.windyty.com

Litlar breytingar hafa orðið á veðurspám frá því í morgun, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Helst það þó að hlánað hefur fyrr en ætla mátti sums staðar suðvestanlands. Það hefur í för með sér að neðan 100 metra hæðar verður síður skafrenningur með storminum sem spáð er síðdegis. Verulega fer nú að bæta í vind sunnanlands og aftakaveðri er spáð austur með ströndinni, 30-35 m/s og fara hviður um og yfir 60 m/s.

Hér má fylgjast með lægðinni „í beinni“

Almennt séð bætir mjög í vind á landinu síðdegis og í kvöld og til að byrja með einkum kóf vegna skafrennings, en síðar bætist ofankoma við.

Austanlands sérstaklega eru horfur á mikilli snjókomu í kvöld, sérstaklega á fjallvegum. Í nótt ganga skil lægðarinnar norður yfir landið. Þá gerir væga hláku á láglendi um land allt og lægir mikið norðan- og austanlands.

Sjá nánar á veðurvef mbl.is.

Færð og aðstæður

Búið er að loka veginum um Kjalarnes og einnig Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum.  Suðurstrandarvegur er ennþá opinn en þar er flughálka. Flughálka er einnig á milli Hafna og Grindavíkur og mjög víða á Suðurlandi.  Lokað er frá Hvolsvelli til austurs til Hafnar.

Holtavörðuheiði og Brattabrekka eru nú lokaðar en hálka er á flestum öðrum vegum á Vesturlandi.

Veginum yfir Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum hefur verið lokað en annars er hálka á vegum á Vestfjörðum en ófært er í Árneshrepp á Ströndum.

Búið er að loka veginum yfir Vatnsskarð, Þverárfjall, Öxnadalsheiði og Vikurskarð en annars er hálka víðast hvar á Norðurlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær.

Nú hefur veginum yfir Fjarðarheiði verið lokað. Ófært er bæði á Breiðdalsheiði og Öxi en annars er nokkur hálka á flestum vegum bæði á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert