„Þetta var að detta út áðan,“ segir Hafberg Þórisson, eigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga, í samtali við mbl.is en rafmagn fór út í kvöld á Úlfarsárdal í Reykjavík þar sem fyrirtækið er. Unnið er hörðum höndum að því að bregðast við rafmagnsleysinu en Hafberg segist gera ráð fyrir því að vera á staðnum í alla nótt.
Aðspurður segist hann þó vongóður um að rafmagn komist fljótlega á aftur. Spurður hvenær rafmagnsleysið fari að valda skaða segir hann að það gæti gerst um klukkan 4-6 í nótt. „Þetta er auðvitað skelfilegt. En þetta er bara hluti af lífinu,“ segir Hafberg og rifjar upp að í óveðrinu 1991 hafi 200 rúður farið í húsnæði fyrirtækisins. Hann telji þó enga hættu á slíku enda núverandi byggingar gríðarlega vel byggðar. „En maður veit auðvitað ekkert. Ég er hérna með byggingar upp á kannski 1,5-2 milljarða. Þannig að það er mikið í húfi.“