72,6 metrar á sekúndu

Klukkan 9 í morgun
Klukkan 9 í morgun Veðurstofa Íslands

Mesta hviða illviðrisins sem gekk yfir landið í gær og í nótt mældist 72,6 metrar á sekúndu á Hallormsstaðarhálsi en þar mældist einnig mesti tíu mínútna vindur eða 50,9 metrar á sekúndu. Vindur fór yfir 33 metra á sekúndu í á fjórða tug veðurstöðva. 

Mælingar fóru fram á Hallormsstaðarhálsi, en hálsinn liggur milli Hallormsstaðar og Geirólfsstaða í Skriðdal.

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands er verið að fara yfir mælingarnar en í einhverjum tilvikum gáfu legur sig í vindmælum þannig að ekki eru fyrirliggjandi óyggjandi tölur um vindhraða. Mælirinn á Stórhöfða datt til að mynda út í tvo tíma þannig að það vantar tölur þaðan.

Trausti Jónsson veðurfræðingur skrifar á blogg sitt klukkan tvö í nótt að illviðrið nái býsna hátt á metingslistum - stormhlutfall dagsins í byggð var 69 prósent - sama og í illviðrinu 14. mars sl. Þann dag mæld­ist mesta vindhviðan við Miðfitja­hól á Skarðsheiði, 73,5 m/​s. Hegg­ur það nærri vind­hviðumeti sem sett var á Gagn­heiði árið 1995 þegar vind­hviða þar mæld­ist 74,5 metr­ar á sek­úndu.


Frétt mbl.is: Þetta var ömurlegur vetur

Meðalvindhraði sólarhringsins (í byggð) var meiri í mars, en hitti þá betur í daginn en nú, hæsta klukkustundarlandsmeðaltal landsins var nánast hið sama í veðrunum tveimur. Annars eru þetta eðlisólík veður.

Fárviðri (>32,6 m/s) hafði mælst á 33 stöðvum klukkan tvö í nótt en fleiri hafa bæst í hópinn síðan þá - flestar þeirra á fjöllum og hálendi - en á láglendi í Æðey, á Fagurhólsmýri, Þyrli í Hvalfirði, við Markarfljót og á Kjalarnesi.

Björgunarsveitir höfðu í nægu að snúast við að bjarga lausamunum …
Björgunarsveitir höfðu í nægu að snúast við að bjarga lausamunum sem fuku mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fár­v­irðri fýkur allt laus­legt, þar á meðal möl og jafn­vel stór­ir stein­ar. „Kyrr­stæðir bíl­ar geta oltið eða fokið. Heil þök tek­ur af hús­um. Skyggni oft­ast tak­markað, jafn­vel í þurru veðri,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Vindaspáin í gær
Vindaspáin í gær Veðurstofa Íslands

Ekki fellibylir á Íslandi

Þrátt fyrir hávaðarok á Íslandi skal varast að tala um fellibylji þar sem oft er miðað við að yfirborðshiti sjávar þurfi að vera 26°C hið minnsta til að fellibylur geti myndast. Við suðurströnd Íslands fer sjávarhiti ekki mikið yfir 10°C og má á því sjá að sjórinn þyrfti að hlýna mikið til að fellibyljir gætu myndast á okkar slóðum, segir á Vísindavefnum.

Á hinn bóginn verða stundum til smáar en krappar lægðir á norðurslóðum sem svipar nokkuð til fellibylja, en eru víðáttuminni og hvergi nærri eins djúpar. Eru það svokallaðar heimskautalægðir, en þær myndast í ísköldu lofti sem streymir yfir tiltölulega hlýjan sjó. Líkt og fellibyljir sækja lægðir þessar orku sína að verulegu leyti í losun dulvarma við þéttingu raka.

Rokið á Íslandi klukkan 22 í gærkvöldi
Rokið á Íslandi klukkan 22 í gærkvöldi Veðurstofa Íslands

 

„Fellibyljir eru djúpar og krappar lægðir sem myndast yfir hafi í hitabeltinu. Lægðir þessar valda oft miklu tjóni þegar þær ganga á land, ýmist vegna fárviðris, úrfellis eða sjávarflóða sem oft fylgja.

Ólíkt lægðum sem fara um Ísland og myndast og dýpka á mörkum kaldra og hlýrra loftmassa sækja fellibyljir orku sína í varma sem losnar úr læðingi við að raki í lofti þéttist í skýjadropa. Slík þétting á sér stað í risavöxnum skúraklökkum þar sem uppstreymi er mikið.

Nauðsynlegt skilyrði þess að uppstreymi með rakaþéttingu eigi sér stað í stórum stíl er hlýtt og rakt loft nálægt yfirborði jarðar. Þær aðstæður má finna yfir úthöfum í hitabeltinu, þar sem fellibyljir verða til og eflast,“ segir á Vísindavefnum en þar er að finna margvíslegan fróðleik um fellibyli.

Reykjavíkurhöfn í gærkvöldi
Reykjavíkurhöfn í gærkvöldi mbl.is/Eggert Jóhannesson
Úr Mýrdalnum
Úr Mýrdalnum mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert