Hús fauk í heilu lagi á Patreksfirði á fimmta tímanum í nótt en ekkert stórtjón hlaust af. Enginn bjó í húsinu sem var orðið gamalt og illa farið, að sögn Karls Vilbergssonar, varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði. Brak úr húsinu fauk meðal annars á tvö hús í nágrenninu og brotnuðu rúður í þeim.
Bálhvasst er enn á Vestfjörðum og hefur verið í alla nótt. Ekki hefur verið mikið um útköll í nótt nema á Patreksfirði þar sem talsvert var um útköll. Til að mynda þurfti að negla klæðningar á einhverjum húsum.
Að sögn Karls hefur staðan ekkert breyst varðandi snjóflóðahættu frá því í gærkvöldi.