Björgunarsveitir landsins hafa farið í vel á fjórða hundrað útkalla í dag og í kvöld. Ólöf S. Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, telur 340 útköll en segir að inn í þá tölu vanti upplýsingar frá Norðurlandi og Vestfjörðum. Kveðst hún vita til þess að Vestfirðingar séu á leið í verkefni á Patreksfirði og að einnig hafi verkefni komið upp á Akureyri þar sem veðrið er að færast og að örlítið hafi hægt á útköllum á höfuðborgarsvæðinu.
Segir hún næstum 770 björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum svo sem lokun vega og útköllum og aðstoðarbeiðnum auk þess sem margir hafi verið í viðbragðsstöðu í húsi.
Hún segir alvarleika útkalla ná yfir allan skalann.
„Ég held að það komi ekki í ljós fyrr en á morgun hversu mikið tjón hefur orðið en við vitum að það hefur verið töluvert, sérstaklega í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum þar sem heilu þökin eru að fjúka og gróðurhús að springa,“ segir Ólöf.
„Það er alveg ljóst að það hefur orðið töluvert tjón en þetta hefur samt gengið, enn sem komið er, vonum framar held ég, miðað við hvað spáin var slæm. Fólk var mjög duglegt við að fara eftir viðvörunum, halda sig heima og ganga frá í kringum sig. Það hefur bjargað töluvert miklu.“
Ólöf kveðst ekki vita til neinna slysa á fólki utan björgunarsveitarmanns sem slasaðist í Vestmannaeyjum. Sem betur fer hafi meiðsli hans verið minniháttar en hann skarst á hendi.