Viðbrögð við því að breytingartillaga minnihluta fjárlaganefndar á fjárlögum um að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirkar kjarbætar var felld í atkvæðagreiðslu á Alþingi í fyrradag hafa verið sterk og talsmenn hópanna segja það svíða á meðan ráðherrar alþingismenn hafi samþykkt afturvirkar kjarabætur fyrir sig frá marsmánuði.
Stjórnarliðar hafa bent á að sögulega hafi kjarabætur hópanna sjaldan verið meiri en á þessu kjörtímabili. Þær Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segja að prósentutölur hafi lítið að segja þegar verið sé að tala um lágar upphæðir.
Ellen segir kjör örorkulífeyrisþega færast úr 172 þús. krónum á mánuði í 184 þús. krónur á mánuði um áramótin. „Og það veit það hver heilvita maður að það er ekki hægt að lifa á 184 þúsund krónum á Íslandi í dag,“ segir Ellen.
mbl.is ræddi við Ellen og Þórunni.
Minnihluti fjárlaganefndar lagði til að ríflega 5,3 milljörðum yrði varið í að elli- og örorkulífeyrir hækkaði afturvirkt líkt og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga.