Óþolandi að sitja undir sífelldum ákúrum

Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og formaður prófessoraráðs Landspítala.
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og formaður prófessoraráðs Landspítala. ljósmynd/Kristinn

„Það er óþolandi að Landspítali þurfi sífellt að sitja undir ákúrum um óhagkvæman rekstur; stofnunin fær einfaldlega ekki nægt fé til að veita grunnþjónustu og standa við kjarasamninga, hvað þá að hægt sé að byggja hana upp á ný eftir viðvarandi þrengingar sl. aldarfjórðung,“ segir Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítala. 

Hann segir að nýjustu „fjaðrir Landspítalans“ séu á „kostnað einkaaðila en ekki hins opinbera – jafnvel þótt Vigdís [Hauksdóttir] og Guðlaugur Þór [Þórsson] reyni að telja fólki trú um annað.“

Þetta kemur fram í grein sem Tómas skrifar í Morgunblaðið í dag.

Hann segir, að það hafi verið starfsfólki Landspítala gífurleg vonbrigði þegar meirihluti fjárlaganefndar ákvað að Landspítali fengi enga aukafjárveitingu til að tryggja grunnþjónustu sjúkrahússins og endurbætur á húsnæði. Hann bendir á að formaður nefndarinnar, Vigdís Hauksdóttir, og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi farið fyrir þeirri ákvörðun.

Óskiljanleg ákvörðun

„Þegar Vigdís reyndi að verja þessa óskiljanlegu ákvörðun í nýlegu viðtali við RÚV vísaði hún til þess að nú ætti að leggja áherslu á heilsugæsluna í landinu. Allir eru sammála um að veita þurfi aukið fé til heilsugæslunnar en það er kyndugt að slíkt átak sé í raun á kostnað endurreisnar Landspítala. Umræðan um kostnað við ýmis „hliðarverkefni“ í heilbrigðisþjónustu var þó enn forvitnilegri, en nefnd voru til sögunnar „lifrarbólguverkefnið“ og „jáeindaskanni“,“ skrifar Tómas.

„Sumir gætu haldið að ríkisstjórnin styddi þessi brýnu verkefni með ráðum og dáð og nýtti til þess meirihluta sinn í fjárlaganefnd. En það er öðru nær. Staðreyndin er sú að íslenska ríkið hefur sloppið ótrúlega ódýrt frá þessum „hliðarverkefnum“. Einkaaðilar hafa hins vegar hlaupið undir bagga og bjargað málum með ómetanlegu framlagi. Nýjustu fjaðrir Landspítalans eru því á kostnað einkaaðila en ekki hins opinbera – jafnvel þótt Vigdís og Guðlaugur Þór reyni að telja fólki trú um annað. Þjóðarsjúkrahúsinu hefur reynst nauðsynlegt að reiða sig á hlýhug og góðvild annarra en forystu fjárlaganefndar, eins og endurspeglast í þeirri staðreynd að stjórnvöld á Íslandi eru eftirbátar allra OECD-ríkjanna nema Mexíkó þegar kemur að fjárfestingum í innviðum heilbrigðisþjónustunnar. Dæmin eru fjölmörg,“ skrifar hann ennfremur.

Rausnarskapur annarra skipt sköpum

Hann bendir jafnframt á, að Íslensk erfðagreining og Kári Stefánsson hafi af rausnarskap gefið jáeindaskanna sem kosti 800 milljónir króna. Jáeindaskanninn muni spara ríkinu hundruð milljóna króna árlega og fækka utanlandsferðum sjúklinga og aðstandenda.

Þá segir Tómas, að lifrarbólguverkefnið sé enn skýrara dæmi. Ef ekki hefði komið til einstakt framtak nokkurra lækna á Landspítala hefði samningur við lyfjafyrirtækið Gilead ekki orðið að veruleika, en fyrirtækið kostar gjöf lyfsins Harvoni.

„Kostnaður ríkisins hefði ella hlaupið á milljörðum og ekki stóð til að ráðast í hann. Þetta gerir okkur læknum kleift að meðhöndla alla þá 800 til 1.000 Íslendinga sem talið er að séu sýktir af lifrarbólgu C-veirunni. Reyndar leggur ríkið út fyrir 450 milljóna króna kostnaði á næstu þremur árum, en það er lítill hluti heildarkostnaðar verkefnisins.“

Tómast segir ennfremur, að það megi einnig nefna aðgerðarþjarka sem nýlega hafi verið tekinn í notkun og kostaði 250 milljónir króna. Hátt í 300 einstaklingar og félagasamtök hafi greitt helming á móti framlagi ríkisins. Nýlegt hjartaþræðingartæki hafi verið fjármagnað að fullu af einkaaðilum og nauðsynlegar endurbætur á geðdeild til að opna geðgjörgæslu hafi verið fjármagnaðar að mestu með söfnun samtakanna Á allra vörum.

„Listinn er miklu lengri en Landspítali hefur fengið gjafir fyrir rúman einn og hálfan milljarð á síðustu 5 árum. Mér er stórlega til efs að hægt sé að finna háskólasjúkrahús í Norður-Evrópu sem í viðlíka mæli þarf að reiða sig á gjafmildi einkaaðila til að reka nútíma heilbrigðisþjónustu,“ skrifar Tómas.

Spítalinn fær ekki nægt fé

„Í áðurnefndu viðtali við RÚV nefndi Vigdís „sögulega sátt“ í málefnum Landspítala. Hún vísaði þar í fyrirhugaða úttekt á rekstri spítalans. Þessi greinargerð mun líkt og síðasta úttekt sem gerð var fyrir nokkrum árum sýna að reksturinn er hagkvæmari en á sambærilegum stofnunum erlendis og er alls engin lausn á bráðavanda spítalans sem er nú til umfjöllunar. Það er óþolandi að Landspítali þurfi sífellt að sitja undir ákúrum um óhagkvæman rekstur; stofnunin fær einfaldlega ekki nægt fé til að veita grunnþjónustu og standa við kjarasamninga, hvað þá að hægt sé að byggja hana upp á ný eftir viðvarandi þrengingar sl. aldarfjórðung,“ skrifar Tómast.

Þannig sé talið að á næsta ári muni a.m.k. vanta þrjá milljarða til að ekki þurfi að skera niður þjónustu og halda sjó í rekstrinum. Þar beri hæst bráðaviðhald á húsnæði (1.500 milljónir) en einnig vanti nokkur hundruð milljónir til að kjarasamningar við lækna séu fjármagnaðir að fullu. Meirihluti fjárlaganefndar vísi einatt til aukinna framlaga til Landspítala og horfi þá til þröngs tímabils sem endurspegli ekki raunstöðuna.

Ómetanlegar gjafir

„Því skal haldið til haga að frá 2003 til 2014 hefur fjármögnun Landspítala sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins dregist saman um rétt tæplega þriðjung. Á sama tíma eykst þörf fyrir lögbundna þjónustu spítalans um 2% á ári vegna aukinna verkefna sem tengjast mest fjölgun aldraðra. Sé fjármagn ekki aukið í takti við það er það í raun niðurskurðarkrafa.

Það er deginum ljósara að án ómetanlegra gjafa einstaklinga og félagasamtaka á síðasta áratug væri þjónusta spítalans vart nema svipur hjá sjón. Landspítali er fjölmennasti vinnustaður landsins og þangað eiga 400 þúsund einstaklingar erindi á ári hverju. Landsmenn ættu að vera þakklátir fyrir að þjóðarsjúkrahúsið eigi skilningsríka vini en spítalinn mun haltra áfram í nánustu framtíð án alvöru bakhjarla á Alþingi – vina sem hafa sýnt alvöru framsýni og vilja í verki,“ skrifar Tómas.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert