„Gera má ráð fyrir að uppsöfnuð hækkun bóta lífeyrisþega verði 17,1% á árabilinu 2014-2016, sem er umtalsvert hærra en nemur uppsafnaðri hækkun verðlags á sama tíma, sem er áætluð 7,1%. Munurinn er nálægt 10% og því útlit fyrir að kaupmáttur lífeyrisþega muni aukast verulega á þessum tveimur árum,“ segir í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í tilefni af umræðu um hækkanir á bótum til öryrkja- og lífeyrisþega.
Ennfremur segir að auk þess að hækka bætur árlega hafi stjórnvöld frá árinu 2013 „markvisst unnið að breytingum á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Samanlagt er útgjaldaaukning ríkisins vegna breytinganna á árunum 2013 til 2016 áætluð 22,4 milljarðar króna. Árleg varanleg áhrif þessara breytinga nema 7,4 milljörðum króna frá og með árinu 2015.“
Helstu breytingar hafi verið þessar:
- Dregin til baka skerðing á réttindum frá júlí 2009 um að lífeyrissjóðstekjur skerði grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Áætluð útgjaldaáhrif af þeirri breytingu er 1,4 milljaðar króna á ársgrundvelli.
- Dregin til baka lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega frá júlí 2009. Þannig var frítekjumarkið hækkað úr 40 þús.kr. á mánuði í 110 þús.kr. en áætluð útgjaldaáhrif þeirra breytinga er 300 milljónir króna á ársgrundvelli.
- Tímabundið lagaákvæði um hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega úr 27 þús.kr. í 110 þús.kr. framlengt árlega en ella hefðu útgjöld ríkissjóðs lækkað um 1 milljarð króna.
- Lagaákvæðum til að sporna við víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða framlengd árlega en annars hefðu útgjöld ríkissjóðs lækkað um 600-700 milljónir króna.
- Skerðingarhlutfall tekjutryggingar lækkað úr 45% í 38,35% en hlutfallið var hækkað júlí 2009.
- Hækkun frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega úr 10 þús.kr. á mánuði árið 2013 í 27 þús.kr. árið 2015.
- 72 m.kr í fjárlögum í hækkun á tekjuviðmiði fyrir svokallaðar frekari uppbætur í almannatryggingakerfinu. Sú uppbót er greidd vegna sérstakra útgjalda s.s. ef lífeyrisþegi hefur mikinn lyfjakostnað, þarfnast umönnunar annars aðila, hefur kostnað af dvöl á sambýli eða vegna kaupa á heyrnartækjum.