Umræður undir liðnum fundarstjórn Alþingis í dag voru mjög ákafar, en meðal annars var rætt um ummæli Bjarkar Guðmundsdóttur um forsætisráðherra og fjármálaráðherra nýlega og viðbrögð Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins við því.
Í viðtali við Björk á Sky fréttastofunni var nýlega haft eftir henni að ráðherrarnir tveir væru sveitalubbar sem vildu útmá hálendi Íslands. Í kjölfarið skrifaði Jón færslu á Facebook þar sem hann sagði nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa skapa traustan grunn að íslensku samfélagi. „Ég reikna ekki með að Björk leggi sín lóð á þær vogarskálar, eða borgar hún skatta og gjöld á Íslandi. Spyr sá sem ekki veit,“ sagði Jón svo.
Í framhaldinu skrifaði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata færslu þar sem hún sagði Jón vera sjálfum sér til skammar og að hún hafi næstum þurft áfallahjálp vegna dónaskapar hans þegar hún sat við hlið hans heilt ár.
Í umræðum á þinginu í dag ítrekaði Birgitta þessi ummæli sín og sagðist hafa óskað eftir því við skrifstofu Alþingis að fá að flytja sig, enda hafi hún kviðið fyrir að mæta til vinnu þar sem hún þurfti að sitja við hlið Jóns. Segir hún að svarið hafi verið að hún gæti skipt ef einhver annar vildi taka sætið hennar, en hún hafi ekki fundið neinn.
Jón kom næstur í pontu og heyrðist þá í Össuri Skarphéðinssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, að hann hefði ekki verið spurður um þetta og að hann hefði alveg verið til í að sitja við hlið Jóns.
Jón fór svo yfir ummæli sín um Björk og sagði að þegar fólk eins og hún töluðu niður forsætisráðherra og fjármálaráðherra væri eðlilegt að því væri svarað og að ekkert væri dónalegt við það. Ýjaði hann aftur að því að hún borgaði ekki skatta hér og sagðist aldrei hafa séð hana á lista yfir þá sem greiddu háa skatta hér á landi.
Nokkru seinna kom Birgitta á ný í pontu og las þá upp færsluna um tíma sinn við hlið Jóns. Byrjar hún á lofi um Björk: „Enginn núlifandi Íslendingur hefur gert eins mikið fyrir land og þjóð og Björk.“ Við þetta heyrðist hljóð frá Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra. „Gunnar Bragi frussaði í vandlætingu,“ sagði þá Birgitta og bað um að það yrði skjalfest.
Umræður um fjárlög héldu áfram að loknum liðnum um fundarstjórn Alþingis, en önnur umræða um frumvarpið hefur nú staðið yfir í vikutíma.
Enginn núlifandi Íslendingur hefur gert eins mikið fyrir land og þjóð og Björk. Einhvern karlangi sem reyndir að gera lí...
Posted by Birgitta Jónsdóttir on Monday, 14 December 2015