Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að önnur umræða um fjárlögin sé orðin allt of löng. Málið sé tæmt. Hann er ósammála þeim sem segja að það sé í lagi að halda umræðunni áfram. „Sjáfsvirðing þingsins er í fallandi spíral niður á við. Menn eru í algjörri sjálfheldu hér,“ sagði Bjarni við upphaf þingfundar.
Þingfundur gærdagsins stóð fram til rúmlega þrjú í nótt og í morgun fór fram atkvæðagreiðsla um það hvort halda ætti enn einn næturfundinn og var það samþykkt.
„Ég líka að vera ósammála mönnum þegar þeir segja að það sé ekkert víst að þetta met verði slegið, því hér er sannarlega verið að setja met í umræðu og meðhöndlun fjárlaga Alþingis,“ sagði Bjarni í pontu.
„Það sem er að gerast er það að menn eru í spíral niður á við. Niður á við með þingið í virðingu gagnvart þjóðinni. Sjáfsvirðing þingsins er í fallandi spíral niður á við. Menn eru í algjörri sjálfheldu hér og á meðan að menn eru í þessum spíral niður á við, þá getur enginn fullyrt að við séum búin að finna botninn. Það er alveg eins víst að næst þegar fjárlögin koma hér á dagskrá, hvort sem það verður á næsta ári eða jafnvel eftir eitt, tvö, þrjú ár, þá noti menn þetta slæma fordæmi til að réttlæta enn lengri og vitlausari umræðu.“
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í framhaldinu að það væru efnislegar ástæður fyrir lengd umræðunnar. Hann sagði að stjórnarandstaðan vildi gefa meirihluta þingsins tækifæri til að skipta um skoðun í afstöðu sinni varðandi það hvort aldraðir og örorkulífeyrisþegar ættu að njóta sammælis á við aðra í samfélaginu. „Við höfum fengið það skýrt frá hæstvirtum fjármálaráðherra að hann vill setja þá skör lægra en launafólk,“ sagði Árni.
Einnig vilji minnihlutinn tryggja Landspítalanum fullnægjandi fjármagn í samræmi við óskir yfirstjórnar sjúkrahússins. „Því miður er ekki að sjá að stjórnarmeirihlutinn sé að sjá að sér þar.“
Loks vilji minnihlutinn skapa svigrúm fyrir menntamálaráðherra til að koma fram með breytingar varðandi RÚV.