„Allt árásir og pólitískar aðfarir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er alveg furðulegt að menn skuli leyfa sér að tala um aðför og árásir og slíkt gagnvart hinu og þessu þegar um er að ræða í flestum eða öllum tilvikum verulega aukningu fjárveitinga til hinna ýmsu málaflokka og stofnana. En allt eru þetta árásir, pólitískar aðfarir og ég veit ekki hvað,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar um Ríkisútvarpið.

Fram kom í máli Árna að Sigmundur hefði gert Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra að ómerkingi þar sem Illugi gæti ekki staðið við yfirlýsingar um óbreytt útvarpsgjald. Vísaði hann til þess að frumvarp þess efnis hefði ekki verið afgreitt úr þingflokkum stjórnarflokkanna en áður hafði verið gert ráð fyrir að útvarpsgjaldið myndi lækka. Spurði hann forsætisráðherra með hvaða hætti hann hefði í hyggju að standa við þær yfirlýsingar Framsóknarflokksins að hann vildi styðja við Ríkisútvarpið og tryggja veg stofnunarinnar.

Forsætisráðherra sagði að líkt og Illugi hefði rætt um þyrftu mál að njóta stuðnings í þingflokkum stjórnarflokkanna og á meðal ráðherra svo hægt væri að afgreiða þau til þingsins. Menntamálaráðherra hafi metið það svo að málið hafi ekki notið stuðnings í þingflokkunum sem væri að mati Sigmundar rétt mat. Hins vegar yrði að hafa í huga að ríkisstjórnin hefði verið „að setja fjármagn í þessa stofnun langt umfram það sem hans eigin ríkisstjórn gerði og auk þess er nú verið að afhenda lóð sem var í ríkiseigu Ríkisútvarpinu til þess að styrkja enn rekstrarforsendur þess og auka framlög til stofnunarinnar frá því sem leit út fyrir fáeinum vikum.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert