Gjaldið lækkar en framlagið er óbreytt

Útvarpsgjaldið mun lækka úr 17.800 krónum í 16.400 krónur á næsta ári, en á sama tíma mun Ríkisútvarpið fá tímabundið 175 milljóna króna framlag til eflingar innlendrar dagskrárgerðar. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segist ánægður með niðurstöðuna.

Ákvörðun um lækkun útvarpsgjaldsins og viðbótarframlagið var tekin í ríkisstjórn í dag. Heildarframlög til Ríkisútvarpsins á næsta ári munu nema 3,6 milljörðum króna.

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu; þetta verður þá þannig að útvarpsgjaldið verður 16.400 kónur eins og lagt var upp með en það bætast við til Ríkisútvarpsins 175 milljónir þannig að framlagið á næsta ári verður það sama og á þessu ári,“ segir Illugi og vísar þar til krónutölu heildarframlagsins.

Ráðherrann segist telja að niðurstaðan sé þannig að hægt verði að ná sátt um hana. Hann mun á grundvelli þjónustusamnings sjá til þess að 175 milljónunum verði varið til að kaupa efni frá sjálfstætt starfandi framleiðendum.

„Rekstrarlegt umfang Ríkisútvarpsins er ekki að aukast við þetta, heldur erum við að beina fjármununum í þessa átt til að Ríkisútvarpið fái til sín íslenskt efni en líka erum við að styðja við og styrkja betur kvikmyndageirann hér á Íslandi.“

Í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri að ef útvarpsgjaldið yrði lækkað yrðu tekjur RÚV á næsta ári 400 milljónum króna lægri að raunvirði en í ár. Fréttastofa RÚV hefur eftir Magnúsi að það séu mikil vonbrigði að áætlanir um að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu muni ekki ganga eftir.

Er verið að svíkja gefin loforð?

„Nei langt í frá,“ svarar ráðherra. „Það liggur fyrir að ég hafði lagt fram frumvarp sem ekki var búið að afgreiða úr ríkisstjórn um að það yrði óbreytt útvarpsgjaldið. Það var ekki samstaða um það en það náðist samastaða á þessa leið, sem er þó þannig að þetta verður sama fjárhæð milli ára.

Hins vegar liggur alveg fyrir að það er umtalsverður rekstrarvandi hjá Ríkisútvarpinu og hann kom skýrt fram í þeirri skýrslu sem er kennd við Eyþór Arnalds, Eyþórsnefndina, og það verður áfram mikil áskorun að stýra rekstri Ríkisútvarpsins og ná tökum á þessum rekstrarvanda. En fjármagnið sem fer til Ríkisúvarpsins á næsta ári verður það sama.“

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka