Utanríkisþjónustan aflar upplýsinga

Parið var handtekið í Fortaleza í austurhluta Brasilíu.
Parið var handtekið í Fortaleza í austurhluta Brasilíu. Map/Google

Ef íslenskir ríkisborgarar eru handteknir eða settir í fangelsi erlendis getur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitt viðkomandi aðstoð. Á vef utanríkisráðuneytisins segir að borgaraþjónustan geti haft samskipti við þá handteknu eða fangelsuðu. Oftast væri því þannig farið að reynt yrði að ná símasambandi við hann, ef slíkt er talið mögulegt og aðstæður krefjast ekki heimsóknar.

Íslenskt par var handtekið í Fortaleza í austurhluta Brasilíu á milli jóla og nýárs. Lögreglu var gert viðvart um fólkið laugardaginn 26. desember og fundust 4 kg af kókaíni í fórum þeirra við leit lögreglu á svefnstað þar sem parið hélt sig til. Karlmaðurinn er 26 ára og konan tvítug.

Aðspurð segir Urður Gunnarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, ekki hægt að greina frá því að svo stöddu hvort sendiherra Íslands í Washington, Geir H. Haarde, sé kominn inn í málið, en málefni íslendinga í Brasilíu heyra undir hann. Þrír ræðismenn eru í Brasilíu en þeir eru allir staddir fjarri Fortaleza.

Vilja ekki tjá sig við fjölmiðla

Móðir stúlkunnar og fósturfaðir vildu ekki tjá sig við mbl.is þegar leitast var eftir því. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði að engar upplýsingar lægju fyrir hjá lögregluembættinu um ferðir fólksins. Sagði hann að slíkar upplýsingar væru fyrst og fremst að finna hjá utanríkisráðuneytinu á þessu stigi máls.

Frétt mbl.is: Aðstoða fjölskyldur Íslendinganna

Líkt og fram hefur komið í fyrri fréttum mbl af handtöku íslenska parsins, hafa fjölskyldumeðlimir þeirra óskað eftir aðstoð utanríkisráðuneytisins í málinu. Urður segir að utanríkisþjónustan vinni nú hörðum höndum að því að sækja upplýsingar um málið hjá yfirvöldum þar í landi.

Frétt mbl.is: Íslendingar handteknir í Brasilíu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert