Helgi Magnús Gunnarsson, aðstoðarríkissaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að lögregluþjónn úr fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sitji í gæsluvarðhaldi vegna rannsókna ríkissaksóknara á mjög alvarlegum brotum í starfi.
Frétt mbl.is: Lögreglumaður í gæsluvarðhaldi
Lögregluþjónninn, sem er karlmaður, hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því milli jóla- og nýárs og er í einangrun sökum rannsóknarhagsmuna.
Fréttatíminn greindi frá því í dag að til rannsóknar væru óeðlileg samskipti lögreglumannsins við brotamenn. Aðspurður um þær staðhæfingar miðilsins segist Helgi ekki ætla að þræta fyrir þær.
„Við getum orðað það þannig að ég segi ekki að það sé rangt,“ segir Helgi.
Í frétt sinni greindi Fréttatíminn jafnframt frá því að nafn mannsins hefði verið á lista yfir fanga í gæsluvarðhaldi í LÖKE, skráningarkerfi lögreglunnar. Skömmu síðar hafi nafnið verið tekið af listanum.
Helgi segist það hugsanlega skýrast af því að ekki hafi staðið til að upplýsa um málið strax. Segir hann ekki gert ráð fyrir að gefnar verði út nánari yfirlýsingar um málið af hálfu embættis ríkissaksóknara á næstunni.