Framkvæmdirnar að kröfu íbúa

Horft norður Grensásveg. Lagt er til að ein akrein verði …
Horft norður Grensásveg. Lagt er til að ein akrein verði í hvora átt frá Bústaðavegi að Miklubraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúasamtök beggja vegna Grensásvegar hafa kallað eftir að umferðaröryggi þar verði aukið og strax verði ráðist í framkvæmdir þar, að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Dagur að spár sýni að ekki sé þörf á fjórum akreinum á suðurhluta Grensásvegar.

Fyrirhugaðar breytingar á Grensásvegi á milli Bústaðavegar og Miklubrautar sem samþykktar voru í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í vikunni hafa vakið töluverðar umræður. Með þeim verður akreinum fyrir bíla fækkað úr fjórum í tvær en göngu- og hjólastígar lagðir beggja vegna götunnar. Sumir gagnrýnendur framkvæmdanna hafa tengt framkvæmdina við bága fjárhagsstöðu borgarinnar og skerðingu á þjónustu við aldraða.

Í Facebook-færslu sinni bendir borgarstjóri á að því sem hann kallar tímabærri endurnýjun suðurhluta Grensásvegar hafi verið frestað í fyrra, þrátt fyrir eindregnar kröfur íbúasamtaka beggja vegna götunnar um að ráðist yrði strax í framkvæmdina og umferðaröryggi aukið. Þetta hafi meðal annars komið fram á allfjölmennum íbúafundi sem haldinn var um málið.  Ljóst sé að tími sé kominn á viðhald götunnar.

„Nú bregður hins vegar svo við að sumir þeirra sem kallað hafa hvað mest eftir auknu fjármagni í viðhald gatna geta ekki hugsað sér að farið verði í Grensásveg næst. Það er vegna þess að samhliða endurgerð götunnar á að breikka gangstéttar, bæta lýsingu og bæta við hjólastígum. Þessu eru sumir á móti af þeirri ástæðu að með breytingunum fækkar akreinum fyrir bíla úr fjórar í tvær. Það er ekkert launungamál að aðgerðunum er ætlað að hægja á umferðinni og setja fólk í fyrsta sæti, enda er þetta fjölfarin gönguleið skólabarna,“ skrifar Dagur.

Ítrekað legið við slysi vegna hraðaksturs

Endurbæturnar á Grensásvegi segir hann umferðaröryggismál og bendir á að ítrekað hafi engu mátt muna að slys hafi orðið við götuna vegna hraðaksturs. Nefnir borgarstjóri óhapp í nóvember þegar ökumaður pallbíls missti stjórn á bíl sínum á Grensásvegi, rakst í annan bíl áður hann fór í gegnum grindverk og hafnaði inni í garð við Akurgerði. Hrein mildi hafi verið að ekki hafi orðið slys á fólki.

„Í málinu liggur einnig fyrir að hönnunin er í góðu lagi fyrir sjúkra- og slökkvibíla og umferðartalningar og spár sýna að ekki er þörf á fjórum akreinum á þessum stað á Grensásvegi. Gatan verður hins vegar áfram fjórar akreinar á móts við Skeifuna þar sem umferð er meiri,“ skrifar borgarstjóri.

hér á facebook og í umræðunni hefur verið beint til mín spurningum um breytingarnar á Grensásvegi. Það er ljúft og skylt...

Posted by Dagur B. Eggertsson on Friday, 15 January 2016
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert