Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar Birgissonar, sem Atli Helgason, lögfræðingur, myrti í nóvember árið 2000 segir í samtali við Fréttablaðið í dag að það hafi verið eins og blaut tuska í andlitið að frétta af því að Atla hafi verið veitt uppreist æru.
„Hann hefur aldrei sýnt nokkra iðrun til okkar í þessu sambandi. Við höfum aldrei heyrt í honum,“ segir Birgir Örn í viðtali við Fréttablaðið.
Kastljós greindi frá því í gærkvöldi að Atla Helgasyni hefði verið veitt uppreist æru af innanríkisráðuneytinu og hann sækti nú um að fá lögmannsréttindi sín aftur.
Birgir vissi ekki af málinu áður en það kom í fréttum í gærkvöldi. „Þetta er bara eins og blaut tuska framan í andlitið á manni, það er ekkert öðruvísi.“
Í frétt RÚV segir að Atli hafi verið dæmdur fyrir manndráp í maí 2001. Samtímis var hann sviptur málflutningsréttindum. Hann lauk afplánun 2010. Frá þeim tíma hefur hann starfað á lögmannsstofu sem lögfræðingur.
Fyrir áramót fékk Atli uppreist æru sem þýðir að hann er nú með óflekkað mannorð. Atli hefur lagt inn beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttindasvipting hans verði felld úr gildi svo hann geti fengið málflutningsréttindi sín að nýju.
Í Kastljósi kvöldsins kom fram að mál Atla Helgasonar yrði tekið fyrir í héraðsdómi í vikunni. Þar sagði einnig að árunum 1995–2012 hefðu 57 sótt um uppreist æru. 31 var hafnað, einn dró umsókn sína til baka og fimm voru felldar niður. Til þess að eiga möguleika á uppreist æru þarf að hafa tekið út refsingu sína. Sé brotið alvarlegt þurfa að hafa liðið fimm ár frá lokum afplánunar og það þarf að vera fyrsta brot.
Hafi lögmenn verið sviptir lögmannsréttindum þurfa þeir meðmæli Lögmannafélagins og standast prófraun til að eiga möguleika á því að öðlast réttindin á ný.