Karlmaður beraði sig við Háteigsskóla

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður beraði sig fyrir þremur nemendum í fjórða bekk Háteigsskóla við skólann í frímínútum í morgun. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og gátu börnin gefið greinargóða lýsingu á manninum.

Í bréfi sem Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri Háteigsskóla, sendi foreldrum barna í skólanum í hádeginu kemur fram að nemendur hafi brugðist rétt við og kallað starfsmann á vettvang. Skólastjóri ræddi við börnin og gáfu þau greinargóða lýsingu á manninum og atvikinu.

Lögreglan var þegar kölluð til og kom hún fljótlega á vettvang. „Lögreglan vinnur úr málinu í samræmi við verklag og rannsóknarlögreglumaður hefur tekið við rannsókninni. Foreldrar allra nemenda í 4. bekk voru upplýstir um atvikið,“ segir í bréfi Ásgeirs.

Árni Þór Sæmundsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að málið sé í rannsókn en segir ekki unnt að gefa nánari upplýsingar að svo stöddu. Aðspurður segist hann ekki geta svarað því hvort lögreglan viti eða gruni um hvern var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert