Stúlkurnar brugðust hárrétt við

Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri Háteigsskóla.
Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri Háteigsskóla. mbl.is/Eyþór

Að sögn Ásgeirs Beinteinssonar, skólastjóra Háteigsskóla í Reykjavík, hefur það aldrei gerst síðan hann hóf störf í skólanum fyrir 25 árum að karlmaður beri sig fyrir nemendum eins og gerðist í morgun.

„Það hafa verið tælingarmál í hverfinu í gegnum tíðina en ég hef verið stjórnandi í 25 ár og það hefur aldrei gerst áður að einhver hafi gengið að skólalóðinni og gert svona. Þetta er ný reynsla fyrir okkur,“ segir Ásgeir.

Atvikið gerðist í frímínútum í morgun. Þrjár stúlkur höfðu farið á bak við eitt húsið á skólalóðinni þar sem þær voru í boltaleik. Þá gekk maðurinn að girðingunni og kallaði til þeirra.

„Þeim þótti þetta óþægilegt“

Hann segir að börnin hafi brugðist hárrétt við með því að hafa strax samband við starfsmann skólans. „Þessar stúlkur stóðu sig mjög vel en þeim þótti þetta óþægilegt.“

Að sögn Ásgeirs eru nemendur skólans minntir á hvernig á að bregðast við ef svona atvik koma upp. „Þau eru mjög meðvituð um að þau eiga að hlaupa frá og kalla til einhvers.“

Ásgeir ræddi við foreldra stúlknanna og sendur var tölvupóstur til allra foreldra sem eiga börn í skólanum. Lögreglan mætti á svæðið nokkrum mínútum eftir að hringt var í hana og skömmu síðar mætti rannsóknarlögreglumaður á vettvang. „Mér finnst að allir hafi brugðist rétt við, bæði börnin og lögreglan.“

Frétt mbl.is: Karlmaður beraði sig við Háteigsskóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert