Búið að áfrýja Stím-málinu

Lárus Welding og Jóhannes Baldursson fyrir miðri mynd, en þeir …
Lárus Welding og Jóhannes Baldursson fyrir miðri mynd, en þeir fengu þyngstu dómana í málinu. Eggert Jóhannesson

Niðurstöðu héraðsdóms í Stím-málinu svokallaða hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Í málinu ákærði embætti sérstaks saksóknara Lárus Welding, fyrrum bankastjóra Glitnis og Jóhannes Baldursson, fyrrum fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta Glitn­is fyrir umboðssvik og Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, fyrrum bankastjóra Saga Capital, fyrir hlutdeild að umboðssvikum.

Ákæruefnið nær yfir lánveitingar Glitnis til FS37, sem seinna varð Stím, upp á 20 milljarða með veði í öllu hlutafé félagsins til að kaupa bréf í FL Group og Glitni. Saga Capital keypti svo framvirkt skuldabréf af Stím, en fjárfestingasjóður Glitnis, GLB FX, keypti svo umrætt bréf af Saga Capital. Taldi saksóknari að markmið þeirra viðskipta hafi verið að tryggja að Saga Capital fengi kröfu sína bætta að fullu. 

Áður hafði komið fram að Þorvaldur og Jóhannes myndu áfrýja niðurstöðunni. Þá hefur slíkt verið gert í öllum öðrum málum sem kennd eru við bankahrunið 2008. Dæmt var í málinu í héraðsdómi 21. desember í fyrra og fékk Lárus fimm ára dóm, Jóhannes tveggja ára dóm og Þorvaldur 18 mánuði.

Málið er nú komið á áfrýjunarskrá Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert