ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur farið fram á að Matvælastofnun sannprófi með sýnatökum að vatn sem notað er á vinnslusvæðum fyrirtækja sem framleiða sjávarafurðir standist kröfur. Þetta segir Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælaöryggis- og neytendamálasviðs MAST.
Úttekt ESA í október sl. leiddi í ljós framfarir í opinberu eftirliti með sjávarafurðum á Íslandi en gerðar voru athugasemdir vegna nokkurra annmarka. Meðal þeirra voru dæmi „um að Matvælastofnun treysti eingöngu á innra eftirlit framleiðenda þar sem opinbers eftirlits er krafist, t.d. við töku vatnssýna á vinnslusvæðum,“ líkt og segir í frétt á vef MAST.
Frétt mbl.is: Umtalsverðar framfarir
Að sögn Sigurðar bera matvælafyrirtæki ábyrgð á eigin framleiðslu og framleiðsluvörum og eiga að starfrækja innra eftirlit til að tryggja að ákvæði í matvælalöggjöfinni séu uppfyllt. Hvað vatnið varðar fá fyrirtækin það hjá vatnveitum sveitarfélaganna, sem eru starfsleyfisskyldar og undir vöktun heilbrigðiseftirlits, sem tekur sýni úr veitukerfum og raunar einnig hjá matvælafyrirtækjunum sjálfum.
„Við höfum aðgang að þessum niðurstöðum, Matvælastofnun, og þar að auki eiga matvælafyrirtækin að taka vatnssýni til að sannprófa að vatnið sé af viðunandi gæðum og uppfylli kröfur. Matvælastofnun gerir svo úttekt á innra eftirliti fyrirtækjanna og m.a. að gengið sé úr skugga um að fyrirtækin fái vatn frá viðurkenndri vatnsveitu,“ útskýrir Sigurður.
Vegna þess að kerfið er byggt upp með þessum hætti hefur Matvælastofnun ekki lagt mikla áherslu á eigin sýnatökur en í ljósi athugasemda ESA hefur verið gerð áætlun til að mæta kröfum stofnunarinnar.
Annað eftilrlit sem gerðar eru kröfur um er örverueftirlit og mælingar á óæskilegum efnum. Hvað síðarnefndu varðar hefur starfshópur verið skipaður á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til að skipuleggja sýnatökur og eru niðurstöður hópsins væntalegar.
Önnur athugasemd ESA varðaði viðurkenningar á starfstöðvum, en þær reyndust í einstaka tilvikum ekki í fullu samræmi við löggjöf EES. Að sögn Sigurðar var þó um minniháttar aðfinnslur að ræða, sem flestar vörðuðu formsatriði eins og leyfisveitingar vegna eigendaskipta, og gerir hann ekki ráð fyrir að erfitt muni reynast að gera úrbætur þar á.