Hvaðan kemur þessi bolludagur?

Margir taka bolludaginn alvarlega og setja sér metnaðarfull neyslumarkmið. Aðrir …
Margir taka bolludaginn alvarlega og setja sér metnaðarfull neyslumarkmið. Aðrir bara njóta. mbl.is/Styrmir Kári

Börnin í leikskólanum Furuskógi voru önnum kafin við að gæða sér á bollum þegar ljósmyndara mbl.is bar þar að garði síðdegis. Vísast hafa bollur runnið glatt ofan í margan Íslendinginn þegar bolludagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land í dag.

Óttar Sveinsson framleiðslustjóri Bakarameistarans sagði í samtali við mbl.is að bollusalan hefði gengið gríðarvel.

„Ég er bara að klára síðustu bollurnar núna. Það er fullt niðri á borðum og svo er ég að taka núna restina af bollunum mínum. En svo á ég á engar eftir. Ég vona að það gangi, klukkan er nú orðin fimm,“ sagði Óttar glaður í bragði fyrr í dag.

„Með þessu magni í dag og því sem við höfum framleitt undanfarna viku þá erum við að tala um í kringum fimmtíu þúsund bollur.“

Myndskeið mbl.is: Rjómi og súkkulaði út um allt!

Krakkarnir á leikskólanum Furuskógi bíða þolinmóð eftir góðgætinu.
Krakkarnir á leikskólanum Furuskógi bíða þolinmóð eftir góðgætinu. mbl.is/Styrmir Kári

„Fyrst var það bara vínarbrauðsdeigið“

Óttar er 58 ára og byrjaði 16 ára í bakstri. Hann hefur því starfað í geiranum í 42 ár og getur borið vitni um þróun bollanna á þeim tíma.

„Fyrst var það bara vínarbrauðsdeigið sem var notað í þetta. Svo fóru menn í gerbollur sem voru aðeins öðruvísi unnar. Síðan komu þessar vatnsdeigsbollur og þegar þær byrjuðu að detta inn þá tikkuðu þær alltaf ofar og ofar í sölu. Nú eru þær orðnar svona 75-80% af sölunni.“

Þá segir hann tegundum hafa fjölgað á sama tíma.

„Það er verið að leika sér með alls konar brögð. Langvinsælast er bara rjómi með súkkulaðilokinu. Svo eru það bollurnar með rommbragðinu, nutella-bollur, karmellubollur að ógleymdri vínarveislubollunni eins og við köllum hana.

Hún er úr vínarbrauðsdegi, sætur vanillurjómi inn í með rjómanum og núggati sprautað ofan á rjómann. Lokið ofan á það, spænir þar ofan á og svo toppað með smá flórsykri.“

Klassíska bollan með glassúr og rjóma er enn vinsælust en …
Klassíska bollan með glassúr og rjóma er enn vinsælust en samsetningum fjölgar ár frá ári. mbl.is/Styrmir Kári

Hver er þessi bolludagur?

Vert er að rekja uppruna bolludagsins við þetta tilefni.

Flengingar og bolluát berast líklega til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Þetta kemur fram í grein Wikipedia um bolludaginn, sem unnin er eftir heimildum úr Sögu daganna, eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing.

„Heitið bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin,“ segir á Wikipedia.

Bolludagur skipt um hlutverk við öskudag

 „Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á öskudaginn og hafa síðan smám saman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir. Heitið bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður flengingardagur.“

Bolludagur og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk samkvæmt umfjöllun vísindavefs Háskóla Íslands. Segir þar að lengi vel hafi þessi mánudagur verið hefðbundinn frídagur barna í skólum. Tíðkast hafi þá víða um landið að „marséra“ í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld.

Bara eina í viðbót...
Bara eina í viðbót... mbl.is/Styrmir Kári

Trésverð í belti og þríhyrndir hattar

Í Morgunblaðinu í febrúar árið 1915, fyrir 101 ári, er hnignun bolludagsins gerð að sérstöku kvörtunarefni. Segir þar:

„Bolludagur er á mánudaginn. Fjöldi barna gekk um bæinn í gær og bauð pappírsvendi til sölu. Áður fyr var kæti mikil meðal barna bæjarins þann dag. Gengu drengir hús úr húsi í stórum hópum, allir skrýddir mislitum pappírsklæðum, með trésverð í belti og þríhyrnda hatta á höfðinu. Í hverju húsi sungu þeir nokkur gömul íslenzk lög og að því loknu tók foringinn skinnpyngjuna úr buxnavasanum.“

Kvartað yfir óhemju kökuáti barna

Hélt skrifari svo áfram og harmaði það að svokallaðar marcheringar væru horfnar úr bæjarlífinu.

„Kæmi það fyrir að einhver húsmóðir væri ófús á að láta nokkra aura í pyngjuna, þá dundu skammirnar yfir hana. En nú er komin önnur öld. Marcheringar, sem það var kallað, eru nú horfnar eins og svo margt annað einkennilegt og skemtilegt úr Reykjavíkurlífinu.

Og það eina sem virðist vera eftir af kætinni frá fyrri tímum á bolludaginn, er óhemju kökuát barnanna — og full búðarskúffan af smápeningum hjá bökurum bæjarins. Bollan kostar því miður þrjá tveggeyringa í þetta sinn!“

Myndskeið mbl.is: Rjómi og súkkulaði út um allt!

Nammi namm!
Nammi namm! mbl.is/Styrmir Kári



mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert