Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, sakaði borgarstjórnarmeirihlutann um að halda upplýsingum frá borgarbúum með þeirri ákvörðun að kaupa ekki þjónustukönnun Gallup á borgarstjórnarfundi í dag. Sagðist hann viss um að ef borgin kæmi betur út væri könnunin keypt.
Reykjavík hefur komið verst út úr könnun Gallup á ánægju íbúa sveitarfélaga með þjónustu þeirra undanfarin ár. Borgaryfirvöld ákváðu að kaupa ekki könnunina í ár með þeim rökum að hún nýttist ekki til þess að bæta þjónustuna. Til þess sé hún of almenn og úrtakið of lítið. Meirihlutinn hefur lagt fram tillögu um að borgin geri eigin könnun.
Oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði hins vegar gagnlegt að fá samræmda könnun til að leiða í ljós samanburð við önnur sveitarfélög í landinu. Það hlyti að vera eðlilegur metnaður að vita hvar borgin standi gagnvart öðrum og sjá hvort breyting verði á viðhorfi íbúa á milli ára.
Gagnrýndi Halldór fulltrúa Pírata sérstaklega fyrir að standa að ákvörðuninni um að kaupa ekki könnunina í ljósi þess að þeir hefðu talað máli gegnsæis. Þeir stæðu að því að koma í veg fyrir að íbúar fái að sjá hvernig borgin standi gagnvart öðrum sveitarfélögum.
Halldór sagði það algerlega ljóst fyrir sér að ef Reykjavíkurborg kæmi betur út úr könnuninni myndu fulltrúar meirihlutans kaupa niðurstöður hennar ár eftir ár og flagga henni út um allt. Fullyrti hann að kostnaður við að borgin léti gera eigin könnun yrði vafalaust meiri en við að kaupa niðurstöður Gallup og slík könnun gæfi ekki samanburð við önnur sveitarfélög.
Benti hann á að í öðrum sveitarfélögum væri úrtakið einnig almennt en þar væri ánægja íbúa engu að síður mun meiri með þjónustuna en í Reykjavíkurborg.