Sviðsstjórar Reykjavíkurborgar voru á nær einu máli um að þjónustukönnun Gallup nýtist þeim ekki til að bæta þjónustu borgarinnar. Hún mæli frekar ímynd þjónustunnar en ánægju þeirra sem nýti sér hana. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, á borgarstjórnarfundi í dag.
Minnihlutinn í borgarstjórn hefur gagnrýnt ákvörðun borgaryfirvalda að kaupa ekki niðurstöður könnunar Gallup á þjónustu eins og gert hefur verið undanfarin ár. Borgin hefur komið verst út úr slíkum könnunum af öllum sveitarfélögum. Meirihlutinn hefur lagt til að borgin láti gera eigin könnun á ánægju íbúa með þjónustuna.
Í umræðum um tillöguna í borgarstjórn í dag sagði Dagur að spurningin væri ekki hvort gera ætti kannanir á þjónustunni heldur hvort þessi tiltekna könnun væri gagnleg. Sviðsstjórar borgarinnar hafi verið býsna skýrir um það að könnun Gallup nýttist þeim ekki til þess að bæta þjónustuna. Til þess væri úrtakið of lítið og almennt. Hún nái ekki aðeins til þeirra sem raunverulega nýti sér þjónustuna. Ef ekki væru gerðar breytingar mætti jafnvel sleppa henni.
Þannig væri ósamræmi á milli könnunar Gallup og annarra kannana. Þegar könnuð væri ánægja beinna notenda þjónustunnar væri ánægjan meiri en þegar úrtakið væri almennt. Þannig væru vísbendingar um að könnun Gallup mældi frekar ímynd þjónustunnar en raunverulega ánægju notenda hennar.
Viðræður hafi farið fram við fulltrúa Gallup um vissar breytingar á könnuninni til þess að hún nýttist betur til að bæta þjónustuna. Gallup hafi ekki verið tilbúið til að ráðast í þær breytingar að þessu sinni og því hafi sú ákvörðun verið tekin að kaupa niðurstöðurnar ekki fyrir síðasta ár.