Oddný býður sig fram

Oddný G. Harðardóttir
Oddný G. Harðardóttir mbl.is/Kristinn

Oddný Harðardóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram á Facebooksíðu hennar í morgun.

Magnús Orri Schram, sem var þingmaður Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi 2009-2013, tilkynnti um framboð sitt til formanns í Samfylkingunni um síðustu helgi. 

Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sendi flokksfólki bréf hinn 19. febrúar sl. þar sem hann tilkynnti framboð sitt til formanns flokksins.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki enn gefið það upp hvort hann mun sækjast eftir endurkjöri.

Oddný sendi flokksmönnum í Samfylkingunni eftirfarandi póst í morgun:

„Kæru félagar
Ég vil leggja mig alla fram við að bæta íslenskt samfélag. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Samfylkingarinnar.

Verkefni okkar er að styrkja stöðu ungs fólks, barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja. Ójöfnuð sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu þarf að stöðva strax. Til þess þarf samstillt átak jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Ég vil vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis, að sett verði ný stjórnarskrá, að arðurinn af auðlindum skili sér til okkar allra og lífvænlegu umhverfi til komandi kynslóða. Til þess þarf sterka Samfylkingu.

Þegar baráttumálin snúast um jafnrétti og réttlæti er auðvelt að stækka hópinn og fá hugsjónaeldinn til að brenna í hjörtum jafnaðarmanna.

Ég óska eftir stuðningi þínum og samstarfi.
Með baráttukveðjum,
Oddný G. Harðardóttir“

Oddný hefur verið alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2009. Hún var fjármálaráðherra 2011–2012. Fjármála- og efnahagsráðherra 2012. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2011–2012 og 2012–2013.

Oddný  er fædd í Reykjavík 9. apríl 1957 og er  Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri Reykjanesbæjar eiginmaður hennar.  Hún lauk stúdentsprófi frá aðfaranámi KHÍ 1977. B.Ed.-próf KHÍ 1980. Stærðfræðinám til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi HÍ 1991. MA-próf í uppeldis- og menntunarfræði HÍ 2001.

Oddný var grunnskólakennari 1980–1985. Kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1985–1993, deildarstjóri stærðfræðideildar 1988–1990, sviðsstjóri stærðfræði- og raungreinasviðs 1990–1993. Kennari við Menntaskólann á Akureyri 1993–1994. Aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1994–2003. Vann við skipulag og stjórnun vettvangsnáms á vegum Endurmenntunar HÍ fyrir starfandi stjórnendur í framhaldsskólum 2001–2002. Verkefnisstjóri í menntamálaráðuneytinu 2003–2004. Skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja 2005. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2006–2009, að því er segir á vef Alþingis.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert