Vill ganga á hólm við gamla pólitík

Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Fram undan eru tækifæri til þess að koma á grundvallarbreytingum í íslensku samfélagi sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í dag þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að gefa áfram kost á sér sem formaður flokksins. Landsfundur hefur verið boðaður í maí þar sem kosið verður meðal annars um formennskuna. Sagðist Árni Páll vilja leiða Samfylkinguna í þingkosningunum næsta haust.

„Ég vil að Samfylkingin rækti arfleifð sína sem róttækur umbótaflokkur. Við eigum stórkostlega sögu,“ sagði Árni Páll. Flokkurinn hefði náð miklum árangri í síðustu ríkisstjórn þegar glímt hafi verið við eftirleik bankahrunsins og slíkur flokkur ætti að hafa alla burði til þess að bjóða upp á metnaðarfulla og glæsilega umbótaáætlun. Sagðist hann hafa skýrar hugmyndir í þeim efnum sem hann hefði sett fram bæði í ræðu og riti. Þar á meðal breytingar á fjármálakerfinu, stjórnarskrárbreytingar og nýjar áherslur í velferðarmálum. Mestu skipti þó áherslan á ný stjórnmál þar sem horfið væri frá átakastjórnmálum. Ríkisstjórnin hefði stundað slík stjórnmál og stjórnarandstaðan fyrir vikið brugðist við með sama hætti.

Ekki verkefni eins manns að auka fylgi Samfylkingarinnar

Spurður hvernig hann ætlaði að fara að því að rífa upp fylgi Samfylkingarinnar sem væri í sögulegu lágmarki eftir að hann hefði verið við stjórnvölinn sagði Árni Páll: „Ég held að það verði ekki verkefni eins manns að gera það. Alveg sama hver sá maður yrði sem leiðir Samfylkinguna þá geti ekki einn maður gert það. Ég held að við þurfum samstillt átak og við þurfum að átta okkur á því að þegar við horfum til baka þá gekk okkur ágætlega á fyrri hluta þessa kjörtímabils. Okkur hefur gengið síður upp á síðkastið. En ég held að það sé gríðarleg eftirspurn eftir framsæknu umbótafli sem segir hlutina eins og þeir eru og ég held að við þurfum líka að ganga á hólm við gamla pólitík og lykilatriði í því fyrir flokkinn og mig persónulega er að koma hreint fram.“ Mikilvægt væri í því sambandi að geta lært af mistökum.

Spurður hvernig hann mæti stöðu sína í stjórnmálum ef hann tapaði formannskosningunni sagðist Árni Páll ekkert hætta að vera jafnaðarmaður þó hann tapaði kosningum. Annars myndi hann bara meta það ef sú staða kæmi upp. Enginn ætti neitt í Samfylkingunni. Það væri flokksmanna í Samfylkingunni að segja til um það hvort þeir vildu njóta krafta hans áfram. „Ég er ekkert að fara að fara eða hlaupa á dyr ef ég tapa kosningum.“ Sagðist hann ekki vera að bjóða sig fram vegna þess að hann teldi sig vera lausnina á því að reisa við fylgi Samfylkningarinnar. Hann væri að bjóða sig fram vegna þess að hann hefði reynslu og hugmyndir sem hann teldi að skiptu máli fyrir flokkinn og hann vildi gefa flokksmönnum færi á að kjósa um það og sjá hvort þeir deildu þeim skoðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert