Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir nauðsynlegt að forsetaembættið svari spurningum um skattamál Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Elín Hirst vísar þar til umfjöllunar erlendra fjölmiðla um málið sem sett hafi forsetaembættið í neikvætt ljós.
„Það verður að segjast að þögnin frá Bessastöðum er þrúgandi á meðan erlenda pressan setur íslenska forsetaembættið í afar neikvætt ljós vegna skattamála eiginkonu forsetans. Nauðsynlegt er að fá svör frá embættinu um hvað hér er á ferðinni. Það getur ekki beðið,“ segir hún á vefsíðu sinni í dag þar sem hún spyr í fyrirsögn hvað sé í gangi á Bessastöðum í þessum efnum.
Greint hefur verið frá því að undanförnu að Dorrit thafi tengst að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum auk bankareikninga í Sviss. Ólafur Ragnar hefur svarað því til að hann þekki ekki til fjárhagstengsla eiginkonu sinnar. Hann hefði einfaldlega enga vitneskju haft um þessi mál.