Sigurður Ingi reytti af sér brandarana

Sigurður Ingi og eiginkona hans, Ingibjörg Elsa Ingjaldsdóttir, stilltu sér …
Sigurður Ingi og eiginkona hans, Ingibjörg Elsa Ingjaldsdóttir, stilltu sér upp með forsetahjónunum fyrir kvöldverðinn við komuna í Hvíta húsið. AFP

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra Íslands, fékk gesti kvöldverðarboðs Hvíta hússins til heiðurs norrænum þjóðarleiðtogum til að skella upp úr þegar hann minntist á að íbúar Íslands væru 1.000 sinnum færri en Bandaríkjamenn.

„Við felum okkur ekki á bak við skort okkar á stöðu ofurveldis,“ sagði Sigurður í ræðu sinni. „Það sem okkur skortir í mannafla bætum við upp með eldfjöllum, þótt við séum reyndar enn að finna út úr því hvernig við eigum að miða þeim.“

Sigurður Ingi naut sín vel í pontu.
Sigurður Ingi naut sín vel í pontu. AFP

Samkvæmt Washington Post uppskar forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, mestu hlátrasköllin. Hann fór yfir lista frægs fólks af norrænum uppruna, s.s. Scarlett Johansson, Juliu Roberts og Umu Thurman.

„Og Norðmennirnir? Þeir gáfu ykkur Karl Rove.“

Kvöldið var 12. opinberi hátíðarkvöldverður ríkisstjórnar Obama fyrir leiðtoga annarra landa og segir Washington Post hann hafa verið fínlegan þakklætisvott fyrir þá gestrisni sem forsetahjónunum var sýnd í Skandinavíu árið 2013. 350 gestir voru við kvöldverðinn sem haldinn var til heiðurs forsætisráðherrum Íslands, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar og forseta Finnlands.

Barack Obama gantaðist með fullkomnun Norðurlanda.
Barack Obama gantaðist með fullkomnun Norðurlanda. AFP

„Við erum þakklát fyrir vináttu okkar við norrænar þjóðir – jafnvel þótt við verðum stundum öfundsjúk út í hversu fullkomnar þær virðast,“ sagði Obama í léttum tón í ræðu sinni. „Þegar einhver þessara norrænu ríkja eru heimsótt er allt í röð og reglu, allt er hreint, allir hegða sér vel. Það hefur jafnvel leitt til útgáfu metsölubókar sem heitir „The Almost Nearly Perfect People“.“

Eftir að gestir höfðu gætt sér á krásum á borð við hægelduð rif frá Nebraska og sjávarréttakokteil með ákavíti flutti söngkonan Demi Lovato nokkur lög.

Fréttir mbl.is:

Heiður að fá viðhafnarkvöldverð

Bauð Obama í Íslandsheimsókn

Forsætisráðherrafrúin mætti í buxum

Góðar móttökur í Hvíta húsinu

Vegleg veisla í Hvíta húsinu

Demi Lovato kom fram undir lok kvöldverðarins.
Demi Lovato kom fram undir lok kvöldverðarins. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert