Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það mjög mikilvægt að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að rannsaka aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003. Það sé algjört grundvallaratriði.
Helgi gerði málið að umtalsefni í upphafi þingfundar í dag. Eins og kunnugt er hafa umboðsmanni Alþingis borist nýjar upplýsingar um hvernig leiða megi í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans í kaupunum með aðild hans að Eglu hf.
S-hópurinn svonefndi keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003.
Helgi benti á að þegar fjárlaganefnd Alþingis rannsakaði málið fyrir um tíu árum hafi þessar upplýsingar, sem umboðsmaður segist nú búa yfir, verið þær sem skorti til að upplýsa um hvort um „svik og svínarí“ hafi verið að ræða.
Enn væri þó of snemmt að segja til um hvaða upplýsingar þetta væru eða hvaða þýðingu þær gætu haft.
Helgi nefndi að margir hefðu haft ástæðu til þess að ætla að þýski bankinn hefði ekki verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans, heldur hefði hann verið leppur fyrir íslenska aðila. Þessi erlenda fjárfesting, sem svo var kölluð, hefði ekki verið erlend fjárfesting, heldur íslenskir peningar og jafnvel fengnir að láni úr sömu ríkisbönkum og verið var að selja.
Hann sagði brýnt að upplýsa almenning svo fljótt og verða má um hvernig aðkomu bankans var háttað að kaupunum. Rannsóknarnefndin þyrfti að fá allt það fjármagn og starfslið sem þörf væri á. Þarna væri að finna kjarnann í samsærinu í einkavæðingunni. „Upp komast svik um síðir.“
Fréttir mbl.is:
Gæti legið fiskur undir steini