Vefengja líklega ekki niðurstöðu saksóknara

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir gott að niðurstaða sé komin …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir gott að niðurstaða sé komin í málið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari telur fyrir fram engar sérstakar líkur á að embætti ríkissaksóknara hafi frumkvæði að því að taka upp ákvörðun héraðssaksóknara í máli lögreglufulltrúans sem sakaður var um óeðlileg tengsl við brotamenn. Héraðssaksóknari felldi í gær niður mál lögreglufulltrúans, sem verið hefur til rannsóknar hjá embættinu í nærri hálft ár.

Eft­ir ára­mót var gerð breyt­ing á sak­sókn­ara­embætt­um hér­lend­is og rann­sókn á lög­reglu­mönn­um og aðgerðum þeirra var færð und­ir nýtt embætti héraðssak­sókn­ara. Rík­is­sak­sókn­ari varð í leiðinni að öðru stigi ákæru­ferl­is­ins þangað sem hægt er að kæra niður­stöðuna til rík­is­sak­sókn­ara.

Helgi Magnús segist vera að kynna sér málið. „Fyrir fram þá eru hins vegar engar sérstakar líkur á að við förum að að vörum að taka upp ákvörðun héraðssaksóknara, nema það komi fram einhver sérstakur rökstuðningur eða kæra frá einhverjum sem telur sig vita betur.“

Fyrsta skipti sem málið fær rannsókn

Embætti  ríkissaksóknara geti þó vissulega ákveðið að taka málið til frekari rannsóknar ef það sér ástæðu til. „Ég treysti henni Kolbrúnu Benediktsdóttur hins vegar alveg ágætlega til að afgreiða þetta, en ef einhver kærir þá þurfum við að taka afstöðu til kærunnar á hvorn veginn sem er, en um hugsanlega niðurstöðu af þeirri kæru er ekkert hægt að tjá sig á þessu stigi.“  

Hann telur þó gott að niðurstaða sé kominn. „Þetta er í fyrsta skipti sem málið fær rannsókn og það virðist vera búið að rannsaka allar þær ávirðingar sem settar hafa verið fram og ég tel mikilvægt að það sé komin niðurstaða í málið.“

Héraðssaksóknari hafi nú rannsakað málið með aðstoð lögreglumanna. Spurður um aðkomu lögreglunnar að rannsókninni segir Helgi Magnús að vissulega væri gott að hafa sér stofnun sem sæi um slíkar rannsóknir, en fámennið leyfi ekki slíkt. Þess sé þó vel gætt að þeir lögreglumenn sem að koma að rannsóknum héraðssaksóknara, og áður að rannsóknum ríkissaksóknara, hafi engin tengsl við þá sem þeir rannsaki. Helgi Magnús áréttar enn fremur að rannsóknirnar séu framkvæmdar af saksóknara sem er starfsmaður ákæruvalds, en ekki lögreglu.

„Ég held að menn þurfi núna að anda með nefinu og sjá hvort þetta sé rétt niðurstaða. Því það sem við höfum haft hingað til hafa bara verið getgátur og grunsemdir einhverra manna, sem ég er ekki að gera neitt lítið úr, en þær hafa aldrei verið byggðar á neinni sakamálarannsókn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert