Aðild Íslands enn fjarlægari hugmynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ir niður­stöðu þjóðar­at­kvæðagreiðslu Breta um veru þeirra í Evr­ópu­sam­band­inu „póli­tísk stórtíðindi“ sem geri hug­mynd­ina um Ísland í Evr­ópu­sam­band­inu enn fjar­læg­ari.

Spurður hvort niðurstaðan hafi komið sér á óvart seg­ir Bjarni að það hafi verið mjög erfitt að ráða í stöðuna fyr­ir fram. „Kann­an­ir í Bretlandi voru mis­vís­andi en ein­mitt þess vegna get­ur þetta ekki komið manni mjög á óvart,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

„Þetta eru póli­tísk stórtíðindi, ekki bara fyr­ir Bretlandi held­ur fyr­ir Evr­ópu­sam­vinn­una alla. Þetta er mjög lýs­andi fyr­ir það sem hef­ur verið að ger­ast und­an­far­in ár þar sem við höf­um séð átök milli þess arms inn­an Evr­ópu­sam­vinn­unn­ar sem hef­ur viljað stöðugt meiri samruna og dýpri sam­vinnu og  hinna, sem hafa verið að sækja mjög í sig veðrið bæði í Evr­ópuþings­kosn­ing­un­um en líka í flokkapóli­tík ein­stakra aðild­ar­landa, sem hafa sagt hingað og ekki lengra og telja rík­in hafa gengið of langt í sam­vinn­unni. Þetta byrjaði sem friðar- og toll­viðskipta­sam­band og að mati margra á að halda sig við þann kjarna sam­vinn­unn­ar og hætta að skipta sér um of af dag­legu lífi fólks.“

Bjarni seg­ir að þessi ágrein­ing­ur krist­all­ist í kosn­ing­unni í Bretlandi. „Meira að segja þær til­slak­an­ir sem Dav­id Ca­meron sagði að væri nauðsyn­leg­ar og lagði fyr­ir þjóðina þóttu ekki full­nægj­andi að mati kjós­anda,“ seg­ir Bjarni.

Mögu­lega áminn­ing­in sem Evr­ópuþingið þurfti

Hann tel­ur að nú taki við nýir og breytt­ir tím­ar í Evr­ópu­sam­vinn­unni og að þessi niðurstaða hafi hugs­an­lega verið áminn­ing­in sem Evr­ópuþingið og leiðtog­ar annarra aðild­ar­ríkja þurftu á að halda, þ.e. að fólki væri al­vara um að farið væri of hratt yfir og langt í af­skipt­um af innri mál­efn­um aðild­ar­ríkj­anna.

Þá finnst Bjarna sú ákvörðun Dav­id Ca­meron, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, að víkja í ljósi niður­stöðunn­ar mjög í anda þess hvernig Ca­meron hef­ur starfað á ferl­in­um. „Hann barðist mjög heiðarlega í sinni bar­áttu og lagði allt sitt í hana. Hann var sömu­leiðis mjög af­drátt­ar­laus og skýr í þeirri yf­ir­lýs­ingu sem hann gaf í morg­un um að hann sæi ekki fyr­ir sér hvernig hann ætti að leiða viðræður við Evr­ópu­sam­bandið í ljósi þess­ara niðurstaða og taldi ann­an kost vera betri.“

Munu leggja kapp á að viðhalda góðu sam­bandi við Bret­land

Bjarni seg­ir að ís­lensk yf­ir­völd muni gera allt sem þau geta til þess að lág­marka áhrif niður­stöðunn­ar á ut­an­rík­is­viðskipti þjóðar­inn­ar við Breta og sam­skipti. „Við munu  leggja allt kapp á að viðhalda þeim góðu tengsl­um sem við höf­um haft,“ seg­ir Bjarni. Bend­ir hann á að Bret­land muni lík­lega ekki yf­ir­gefa sam­bandið form­lega fyrr en eft­ir rúm tvö ár í fyrsta lagi en aug­ljós­lega hljóti niður­stöðurn­ar að hafa mik­il áhrif um mögu­lega aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu í framtíðinni „sem meiri­hluti lands­manna hef­ur aldrei séð fyr­ir sér að ætti að ger­ast,“ seg­ir Bjarni.

„Í mín­um huga er hún enn fjar­læg­ari hug­mynd eft­ir þessa niður­stöðu því öll Evr­ópu­sam­vinn­an er nú til end­ur­skoðunar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert