Mikil áhrif hér á landi

Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra.
Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er tvímælalaust tímamótaatburður í sögu Evrópu,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi formaður Heimssýnar og fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is, en samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi í gær að segja skilið við Evrópusambandið. Ragnar segir niðurstöðuna hæglega geta haft þær afleiðingar að fleiri ríki sambandsins eigi eftir að segja skilið við það þegar fram líða stundir. Þá muni niðurstaðan klárlega hafa mikil áhrif hér á landi, meðal annars á komandi þingkosningar.

„Ef við hverfum um hálfa öld aftur í tímann þá urðu á þeim tíma til þessi tvö viðskiptabandalög í vestanverðri Evrópu. Annars vegar EFTA, sem hafði upphaflega sjö ríki innanborðs undir forystu Bretlands, og hins vegar Efnahagsbandalag Evrópu, sem síðar var kallað Evrópubandalagið og loks Evrópusambandið, undir forystu Þýskalands, Frakklands og Ítalíu. Síðan gerist það upp úr 1970 að Bretar ákveða að yfirgefa EFTA og ganga í Efnahagsbandalagið. Eftir það fór skriða af stað og fleiri ríki fóru í kjölfarið þessa sömu leið,“ segir Ragnar.

Fleiri ríki gætu gengið úr ESB í kjölfarið

Meðal ríkja sem gengið hafi úr EFTA og í Evrópusambandið eða forvera þess hafi verið meðal annars Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Íslendingar eru í dag í EFTA ásamt Norðmönnum, Svisslendingum og Liechtenstein. Ragnar segir að nú kunni svo að fara að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu kunni að hafa sömu áhrif á sambandið og úrsögn landsins úr EFTA hafði á sínum tíma. En með öfugum formerkjum. Það er að fleiri ríki kunni að segja skilið við Evrópusambandið og þá hugsanlega ganga til liðs við EFTA í framhaldinu.

AFP

„Ég er ekki í neinum vafa um það að þessi tíðindi eiga eftir að hafa heilmikil áhrif á önnur ríki. Sérstaklega á Norðurlöndunum. Hér á Íslandi mun þetta einkum hafa þau áhrif að mínu mati að allt tal um að ganga í Evrópusambandið mun hljóðna enn frekar. Það sama mun gerast í Noregi þar sem fólk hefur sífellt orðið meira afhuga því að ganga í sambandið,“ segir Ragnar. Hvernig sem á málið sé litið sé um stórtíðindi að ræða. Ekki síst í ljósi þess að Bretland sé eitt stærsta ríki Evrópusambandsins og sé nú á útleið þaðan.

Spurður hvort hann telji að niðurstaðan í Bretlandi muni hafa áhrif á kosningabaráttuna fyrir næstu þingkosningar segir Ragnar að vafalaust verði sú raunin. „Þessi tíðindi frá Bretlandi ýta enn frekar undir þá sjálfsögðu kröfu að umsóknin um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði dregin til baka. Þessi umræða um inngöngu Íslands í sambandið og forvera þess hófst í raun ekki fyrir alvöru fyrr en einmitt þegar Bretland fór þar inn. Þannig að ekki er ósennilegt að hún sofni endanlega nú þegar Bretar eru á leiðinni þaðan út.“

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert