Telur sig nýtast betur sem forseti Alþingis

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist koma til með að sakna þess að hafa Helga Hrafn Gunnarsson á þingi en hann tilkynnti í dag um að hann ætli ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata fyrir komandi Alþingiskosningar.

Sjá frétt mbl.is: Helgi Hrafn ekki fram

Hún segir Helga Hrafn þó koma til með að gegna mikilvægu hlutverki þótt hann sitji ekki á þingi.

„Ég fagna þessi meira að hafa hann í því hlutverki sem hann metur sjálfur að sé mikilvægara fyrir liðsheildina. Það er nefnilega svo að við erum ekki venjulegur flokkur og lítum ekki svo á að eitt hlutverk sé mikilsverðara en annað.“

„Reynsla hans af þingstörfum mun nýtast mjög vel í að byggja nauðsynlega brú á milli þings og grasrótar/þjóðar og ég hef óbilandi trú á því að þetta verkefni Helga Hrafsn muni verða mjög farsælt og öðrum til eftirbreytni,“ skrifar Birgitta á Facebook-síðu sína í dag.

Sjá frétt mbl.is: Jón Þór íhugar að gefa kost á sér

Hún nefnir sem dæmi að hún muni ekki sækjast eftir því að verða ráðherra ef flokkurinn kemst í stöðu til að hafa eitthvað um það að segja eftir kosningar.

„Ég tel að ég geti nýst mun betur sem t.d. forseti Alþingis en ráðherra. Ég þrái að laga svo margt sem er bilað og virkar ekki í störfum þingsins og hvernig stofnunin Alþingi er rekin,“ segir Birgitta.

„Helgi Hrafn Gunnarsson er ekki að hætta, hann er að færa sig til. Hann hefur verið að búa til öflug verkfæri sem munu nýtast bæði þingheimi og almenningi mjög vel. Hann kemur svo tvíefldur af reynslu og orku aftur inn á þing á þarnæsta kjörtímabili. Þá verð ég horfin úr þingheimum og vonandi verða margir búnir að öðlast dýrmæta reynslu til að miðla til næstu kynslóða hins nýja Íslands,“ skrifar Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert