Gaf frá sér formennsku í þremur nefndum

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, á Alþingi í gær.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, á Alþingi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, tjáir sig um skipan nefnda Alþingis á Facebook-síðu sinni. Þar segir að hann að stjórnarandstaðan hafi gefið frá sér formennsku í þremur nefndum því hún hafi ekki getað komið sér saman um hvað ætti að falla í hlut hvers.

Bjarni segir að gengið hafi verið út frá því að tveimur nefndum yrði stýrt af stjórnarandstöðu, þ.e. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd annars vegar og velferðarnefnd hins vegar.

Hann nefnir að stjórnarandstaðan hafi viljað ná samkomulagi um þriðju nefndina og að samið yrði um varaformennsku í nefndum.

Þá hafi legið fyrir að tveimur nefndum yrði stýrt af Vinstri-grænum og Pírötum. Ef samið yrði um þriðju nefndina yrði það til að tryggja að Framsóknarflokkurinn færi fyrir einni nefnd. Þróuðust samtölin með þeim hætti að Framsóknarflokkurinn sóttist eftir formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd og var það samþykkt af hálfu stjórnarflokkanna, að sögn Bjarna.

„Með þessu höfðu stjórnarflokkarnir fallist á að fela stjórnarandstöðu forystu í fleiri nefndum en dæmi eru um. Þessu er hins vegar öllu snúið á haus á þann veg að þar sem samkomulagið hafi snúist um að fallast á bón Framsóknarflokksins um forystu í efnahags- og viðskiptanefnd þá hafi stjórnarflokkarnir viljað hafa áhrif á val stjórnarandstöðunnar. Því er slegið upp sem staðreynd í fyrirsögn fréttar á RÚV,“ skrifar Bjarni á Facebook.

„Það væri nær að skrifa frétt um að stjórnarandstaðan hafi gefið frá sér formennsku í þremur nefndum því hún gat ekki komið sér saman um hvað ætti að falla í hvers hlut. Getur verið að Píratar hafi ekki getað unnt Framsóknarflokknum þess að leiða mikilvæga nefnd og hafi frekar viljað kasta öllu frá sér til að koma þeirri sögu á kreik að stjórnin hafi ekkert boðið?“

Frétt mbl.is: Gætu haft formennsku í öllum fastanefndum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert