Fylgi Viðreisnar hefur meira en tvöfaldast á einum mánuði og mælist nú 9,4%, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og eru Píratar stærsti flokkur landsins.
Greint var frá þessu í sexfréttum Ríkisútvarpsins.
Könnunin var net- og símakönnun og gerð dagana 26. maí til 29. júní. Úrtakið var 10.439 manns og var þátttökuhlutfall 58,3%.
Píratar mælast samkvæmt könnuninni með 27,9% fylgi og bæta aðeins við sig á milli kannana. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,1% fylgi og tapar meira en þremur prósentustigum.
Fylgi Vinstri-grænna minnkar líka en flokkurinn mælist nú með 15,2% fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins stendur nokkurn veginn í stað og mælist 10%.
Hástökkvarinn er hins vegar Viðreisn en flokkurinn mælist nú stærri en Samfylkingin, með 9,4% fylgi, en fylgi Samfylkingarinnar er 8,2% og eykst lítillega á milli mánaða.
Björt framtíð rekur lestina með rúmlega þriggja prósenta fylgi, litlu minna en í síðustu könnun.
Tæplega 11% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og 7% svarenda sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina er nánast óbreyttur frá því í maí, um 37%.