Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, segir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr ESB sýna í hnotskurn hinn mikla vanda sem ESB á við að etja. Mikil óánægja sé um alla Evrópu með ýmislegt í þróun Evrópusambandsins, ekki síst vegna þess samruna sem hafi átt sér stað og þess að völd hafi í æ ríkari mæli verið flutt frá þjóðríkjunum til stofnana ESB í Brussel.
Þetta segir í ályktun sem hreyfingin sendi fjölmiðlum:
„Við þessar aðstæður ætti öllum að vera ljóst hversu fráleitt það er að umsókn Íslands að ESB frá árinu 2009 skuli ekki hafa verið dregin tryggilega til baka líkt og Svisslendingar hafa nýverið gert. Þess vegna hvetur framkvæmdastjórn Heimssýnar til þess að Alþingi Íslendinga, sem hóf þessa vegferð án þess að spyrja þjóðina, samþykki, líkt og svissneska þingið nýlega, að draga umsóknina formlega og tryggilega til baka,“ segir enn fremur í ályktuninni.