Birna framkvæmdastjóri Viðreisnar

Birna ásamt Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar.
Birna ásamt Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar.

Birna Þórarinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðreisnar en hún tekur við störfum 1. ágúst nk. Birna er 36 ára og hefur margþætta reynslu af stjórnunar- og félagsstörfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.

„Birna var nú síðast verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá Háskólanum í Reykjavík, en áður var hún meðal annars framkvæmdastýra Evrópustofu, upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi, yfirmaður skrifstofu UNIFEM (nú UN Women) á vegum Sameinuðu þjóðanna í Serbíu og framkvæmdastýra landsnefndar UNIFEM á Íslandi. Hún hefur kennt alþjóða- og öryggismál við bæði Háskóla Íslands og háskólann á Bifröst.

Birna hefur verið virk í félagslífi. Hún var t.d. formaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf og situr sem sérfræðingur í samráðshópi á vegum utanríkisráðuneytisins um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

Birna er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, MA í öryggismálafræði frá Georgetown University og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Birna mun í störfum sínum hjá Viðreisn sinna daglegum rekstri flokksins og gegna lykilhlutverki í kosningabaráttunni sem er framundan,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert