Samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 15. til 22. júlí mældust Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi. Fylgi Pírata mældist nú 26,8%, borið saman við 24,3% í síðustu könnun (sem lauk 4. júlí) og Sjálfstæðisflokkurinn mældist nú með 24,0% fylgi, borið saman við 25,3% í síðustu könnun.
Fylgi Vinstri-grænna dalaði nokkuð frá síðustu mælingum og stendur nú í 12,9% borið saman við 18,0% í síðustu könnun og 17,2% þar áður (lauk 16. júní). Viðreisn bætti við sig nokkru fylgi frá síðustu könnun og mælist nú með 9,4% fylgi, borið saman við 6,7% í síðustu könnun.
Samfylkingin mældist nú með um 8,4% fylgi, borið saman við 10,9% í síðustu könnun og Framsóknarflokkurinn mældist með 8,4% fylgi, borið saman við 6,4% í síðustu könnun.
Björt framtíð mældist nú með 3,9% fylgi, borið saman við 2,9% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist um og undir 2%.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 906 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 15. til 22. júlí 2016