Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segist ekki hafa trú á öðru en að þingkosningar fari fram í haust eins og stefnt hafi verið að þrátt fyrir ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að það sé ekki víst. Sigmundur sagði í bréfi til framsóknarmanna í gær að forsenda þess væri að ríkisstjórnin kláraði ákveðin mál.
„Sigmundur boðaði endurkomu sína í stjórnmálin líka í vor og sagði þá þetta sama. Þannig að þetta eru kannski ekki alveg ný sjónarmið hjá honum. En þá sögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar alveg skýrt að kosningarnar yrðu í haust og síðan hefur það verið margítrekað. Þannig að ég tel ekki ástæðu til annars en svo verði,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Krafa stjórnarandstöðunnar hafi verið að kosningar færu fram síðasta vor vegna þeirrar stöðu sem þá hefði verið komin upp í stjórnmálunum. „Þannig að það kemur nokkuð á óvart að formaður Framsóknarflokksins kannist ekki við ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að flýta kosningunum.“ Hann virðist þannig ekki vera í takti við forystumenn ríkisstjórnarinnar.
„Ég sé ekki betur en að flestir flokkar, og þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn sem er auðvitað annar stjórnarflokkurinn, séu komnir á kaf í kosningaundirbúning og farnir að undirbúa prófkjör og uppstillingar og annað slíkt. Starfsáætlun Alþingis hefur einnig verið breytt í takt við þetta þannig að ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að kosningar fari fram í haust.“
Katrín bætir við að VG muni fara fram á það að kjördagur liggi fyrir þegar þing komi saman í ágúst. Almenningur eigi rétt á því að vita hvenær verði kosið.