Lögreglan þekkir byssumennina

Frá vettvangi í gærkvöldi.
Frá vettvangi í gærkvöldi. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Lögreglan telur sig vita hvaða menn hleyptu af skotum úr byssu við söluturninn Iðufelli í gærkvöldi. Leitar hún nú mannanna og bifreiðarinnar sem skotið var á. Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Flúðu bæði þeir sem skutu og þeir sem skotið var á af vettvangi.

Frétt mbl.is: Leita tveggja manna og ökutækis

Átta almennir lögreglumenn vopnuðust

Um 30 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðum lögreglunnar í gærkvöldi, en nokkrum götum var lokað í Fellahverfi. Var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til auk þess sem fjórar áhafnir almennra lögreglumanna, samtals átta lögregluþjónar, vopnuðust í samræmi við verklag lögreglunnar að sögn Margeirs.

Engin ummerki voru á staðnum en Margeir segir að talsverður fjöldi vitna hafi verið á staðnum og beri þeim saman um að skotið hafi verið af haglabyssu. Mbl.is greindi frá því í gær að vitni hefði séð afsagaða haglabyssu á staðnum.

Tilkynnt var um skothvelli fyrir utan söluturninn í Iðufelli.
Tilkynnt var um skothvelli fyrir utan söluturninn í Iðufelli. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Margeir segir að lögreglan telji sig vita um hvaða menn sé að ræða. „Við þekkjum hverjir voru þarna,“ segir hann aðspurður hvort um sé að ræða góðkunningja lögreglunnar. Segir hann um þröngan hóp að ræða sem virðist hafa verið að gera upp sakir sem þeir áttu sín á milli. Talið er að samtals hafi á bilinu 30-50 karlmenn verið á svæðinu þegar átökin brutust út í gærkvöldi.

Frétt mbl.is: Heyrði tvo skothvelli í Iðufelli

Frétt mbl.is: Sá tösku fulla af vopnum

Frétt mbl.is: Biðja fólk að vera ekki á ferli

Lögreglan var vopnuð á vettvangi í gærkvöldi.
Lögreglan var vopnuð á vettvangi í gærkvöldi. mbl.is/Freyja Gylfadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert