„Ekki verið að semja á fundinum“

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við vorum ekki að semja um neitt á fundinum. Við fengum bara að vita að það verður kosið 29. október og jafnframt var starfsáætlun þingsins rædd og við fengum að vita að henni verður breytt,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í kjölfar fundarins í stjórnarráðinu í dag.

Sjá frétt mbl.is: Boða til kosninga 29. október

„Þessi fundur var fyrst og fremst upplýsingafundur og við erum þakklát fyrir að fá að vita hvernig framvindan verður, þingstörfin og kjördagur áður en það birtist í fjölmiðlum. Það er ákveðin nýbreytni,“ segir Birgitta.

Aðspurð hvort hún sé bjartsýn á að kosið verði 29. október segir Birgitta:

„Það er ómögulegt að segja. Við erum ekki komin á þann stað ennþá. Ríkisstjórnin á eftir að koma fram með mál sem hún vill klára á þessu kjörtímabili. Við erum ekki komin á þann stað að við séum farin að ræða ítarlega málin og við höfum ekki séð þau öll.

„Við erum með starfsáætlun sem hefði gengið út á það að við værum búin með þetta örstutta sumarþing okkar annan september. Það er verið að ræða um að það sé hægt að halda þinginu gangandi fram að viku fyrir kjördag.“

Auðvitað er þannig að það er hægt að setja fram ný lög sem breyta kjördegi en ég vona auðvitað að svo verði ekki. Það er nauðsynlegt upp á stöðugleika að fólk viti hvenær og hvernig fjárlög verða unnin og hvernig við stjórnum landinu. Ég hef fengið fjölda fyrirspurna frá erlendum stórfjölmiðlum sem segjast alltaf jafnhissa á því að það liggi ekki fyrir hvenær eigi að kjósa,“ segir Birgitta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert