„Hótunin var tekin út af borðinu“

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við vildum að þingstörf gengju fyrir sig með eðlilegum hætti og að við værum ekki að ganga inn í stutt sumarþing með hótanir um að ef við yrðum ekki þæg og góð, þá myndi eitthvað gerast sem okkur líkaði ekki. Niðurstaðan var að sú hótun var tekin út af borðinu,“ segir Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, aðspurð hver skilaboð stjórnarandstöðunnar hafi verið til stjórnarflokkanna á fundinum í dag.

Sjá frétt mbl.is: Boða til kosninga 29. október

„Mér fannst fundurinn góður. Ég hef í raun beðið eftir þessu samtali lengi og almenningur í landinu líka held ég. Það er gott að fá að vita hvenær á að kjósa. Það var lagt til að kosið yrði 29. október og að nýtt þing yrði sett eftir kosningar. Síðan á eftir að ræða það og halda fleiri fundi um það hvernig við ætlum að nýta tímann,“ segir Oddný.

Aðspurð hvaða mál verði til umræðu á þinginu í haust segir Oddný: 

„Við erum að ræða um 39 mál sem eru inni á þingi og svo er verið að boða fleiri ný sem við höfum ekkert séð. Allt í allt eru þetta því um 50 mál. Einhver munu ganga beint í gegn. Önnur eru stærri og þarfnast kerfisbreytinga. Þau þurfum við lengri tíma til að ræða og frá mörgum hliðum. Ég býst við að við frestum slíkum stórum málum nema að þau verði afgreidd með samkomulagi,“ sagði Oddný eftir fundinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert