„Þegar fleiri ríki ganga í samtökin þín, þá þýðir það venjulega að þú öðlast meiri áhrif á alþjóðavettvangi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í samtali við norska fjölmiðla um skoðun sína á hugsanlegri inngöngu Breta í EFTA.
Í vikunni tjáði Evrópumálaráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, sig um málið þar sem hún sagðist gagnrýnin á að hleypa Bretum inn í EFTA. Lilja segir það hins vegar of snemmt að útiloka þann möguleika. „Það er okkar skoðun að það er of snemmt að útiloka breska aðild að EFTA,“ segir Lilja.
Aspaker sagði í viðtali við Aftenposten að það væri varhugavert að hleypa Bretum inn í EFTA af þeirri ástæðu að þá myndu valdahlutföll innan EFTA riðlast til og að það væri ekki endilega jákvætt fyrir Noreg. Segir í frétt E24 að þessi ummæli hafi vakið mikla athygli í breskum fjölmiðlum.
Lilja segist í samtali við E24 að Íslendingar séu nú farnir af stað með greiningarvinnu til að takast á við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu með sem bestum hætti.