„Ég hefði frekar kosið að það væri fyrst gengið formlega frá því við stjórnarandstöðuna að við myndum klára ákveðin mál og síðan væri hægt að finna út dagsetningu,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Hann segir það hafa verið mistök að ákveða dagsetningu kosninga strax og að nú fari öll pressan á ríkisstjórnina varðandi þingstörf. Gunnar Bragi sendi þingmönnum Framsóknarflokksins bréf í gær þar sem hann gagnrýndi þessa ákvörðun og benti á að hún hafi hvorki verið samþykkt í ríkisstjórn né þingflokkum.
Í viðtali við mbl.is segir hann viðbrögð stjórnarandstöðunnar vera þannig að taka hefði þurft ákvörðun um hvaða mál yrðu kláruð hjá þinginu áður en boðað yrði til kosninga. „Þegar þau vita að það er búið að gefa út dagsetningu er ekki mikill vandi að stjórna því hvað klárast hjá þinginu og hvað ekki.“
Frétt mbl.is: „Þessari störukeppni verður að ljúka“
Þá segir hann stjórnarmeirihluta hæglega geta kallað saman nýtt þing og boðað til kosninga ef ekki náist að klára þau mál sem þarf fyrir settan kosningadag, 29. október.
Spurður um hvort ekki sé verið að ganga á vilja þjóðarinnar með því að fresta kosningum enn frekar segir Gunnar Bragi svo ekki vera. „Þjóðin hefur ekki beðið um neitt né kallað eftir neinu. Það voru nokkur þúsund manns, milli tíu og tuttugu þúsund, sem komu á Austurvöll og mótmæltu þessum Panama-málum, forsætisráðherra vék úr forsætisráðuneytinu til að bjarga ríkisstjórninni og gefið var út loforð um kosningar. En menn verða líka að hafa í huga að ríkisstjórnin er kosin með hundrað þúsund atkvæðum kosningabærra manna og við þurfum að svara fyrir okkar verk gagnvart þeim líka.“
Þá segir hann stemmninguna innan Framsóknarflokksins vera þá að flestir hafi ekki viljað nefna dagsetningu strax þó að erfitt sé að svara fyrir heildina.