Mikilvægt er í ríkisstjórnarsamstarfi að samstaða sé við ráðherraborðið. Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í Helgarútgáfunni á Rás 2 í dag, spurð út í þá ákvörðun Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í síðustu viku að sitja hjá við afgreiðslu fjármálaáætlunar og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar vegna áranna 2017-2021.
Lilja sagði að ráðherrar væru ekki endilega alltaf fullkomlega ánægðir með það sem samþykkt væri í ríkisstjórn en síðan stæðu ráðherrar sameiginlega að því. Það gæti verið erfitt þegar kæmi að stjórn landsins ef mörg tilfelli kæmu upp þar sem ráðherrar treystu sér ekki til þess að sýna samstöðu um þau mál sem ríkisstjórnin legði fram.
Við þessar aðstæður myndaðist ákveðin togstreita. Eygló væri mjög fylgin sér og hún hafi viljað fá meiri fjármuni í ýmis velferðarmál. Hún hefði gert ákveðna fyrirvara sem síðan hefðu raungerst á Alþingi. Aðrir ráðherrar líti svo á að ákveðið svigrúm sé sem hugsanlega megi nýta við gerð fjárlaga.
Spurð hvort hún væri ekki ánægð með framgöngu Eyglóar en hún slyppi í þetta sinn svaraði Lilja: „Það eru þín orð.“