Þorsteinn Víglundsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í framboð til Alþingis fyrir Viðreisn og hefur þegar látið af störfum hjá Samtökum atvinnulífsins að því er greint er frá á vefsíðu samtakanna.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA mun, stýra starfi samtakanna uns nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.
„Undanfarin ár hafa mörg mjög jákvæð skref verið stigin í íslensku atvinnulífi og hefur Þorsteinn stýrt starfi SA á tímum mikilla breytinga,“ er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, formanni SA í fréttinni.
„Hann hefur verið mjög farsæll í sínum störfum og verið lykilmaður við að móta nýtt vinnumarkaðslíkan á íslenskum vinnumarkaði. Það er eftirsjá að Þorsteini hjá SA, en um leið er ánægjulegt að sjá öflugan forystumann í íslensku atvinnulífi gefa kost á sér í stjórnmálin. Fyrir hönd SA þakka ég honum kærlega fyrir frábært starf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.“
Þorsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri SA í mars 2013.