Staðreyndavakt í aðdraganda kosninga

Alþingiskosningar fara fram 29. október.
Alþingiskosningar fara fram 29. október. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísindavefur Háskóla Íslands býður almenningi að senda inn spurningar sem geta vaknað í tengslum við alþingiskosningar sem fara fram 29. október.

„Hugmyndin er sú að fá almenning til að koma með spurningar um fullyrðingar sem koma á óvart með einhverjum hætti og hægt er að staðreyna. Við getum miðlað þessum spurningum til sérfræðinga háskólans og fengið þá til að fara ofan í það hvort viðkomandi fullyrðing sé rétt eða röng,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ, í samtali við mbl.is. Hann sér um faglega ritstjórn svaranna ásamt Jóni Gunnari Þorsteinssyni, ritstjóra Vísindavefsins.

Í kosningabaráttu er algengt að stjórnmálamenn og talsmenn stjórnmálaflokka setji fram fullyrðingar um tölulegar staðreyndir eða um þætti sem hægt er að staðreyna, til dæmis um útgjöld til ýmissa málaflokka svo sem heilbrigðis- og menntamála. Litið var til svipaðra staðreyndavakta í Bretlandi og Bandaríkjunum við undirbúning verkefnisins að sögn Þórólfs.

Almenningi gefst nú kostur á í fyrsta skipti að spyrja sérfræðinga Vísindavefsins álits ef þeir sjá fullyrðingar af hálfu stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka sem þeim þykir ástæða til að sannreyna. Dæmi um spurningar sem væri hægt að svara eru til dæmis:

  • Hvert er hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu?
  • Hvert var hlutfallið fyrir 5 árum?
  • Hefur aldurssamsetning þjóðarinnar áhrif á heilbrigðisútgjöld?

Reynt verður að hafa svör við spurningum stutt og hnitmiðuð og ekki verður farið út í umfangsmikla túlkun og greiningu í svörunum. „Við viljum notfæra okkur það að innan veggja Háskólans erum við með mesta safn af sérfræðingum á einum stað sem geta svarað ýmsum spurningum sem snúa að staðreyndum. Með þessu viljum við einnig sinna þjónustuhlutverki skólans gagnvart almennri umræðu í landinu og vonumst til að fá undirtektir frá almenningi,“ segir Þórólfur.

Öll svörin munu birtast á Vísindavefnum og í vefmiðlinum Kjarnanum.

Hægt er að senda inn spurningar með því að smella á græna hnappinn „Sendu inn spurningu“ á forsíðu Vísindavefsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka