Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi á Alþingi í dag tillögur nefndar um endurskoðun stefnu í vímuefnamálum.
Hún sagði of mikla áherslu lagða á að sekta fólk fyrir að hafa á sér fíkniefni. „Hvernig sektar maður fólk út úr fíkn? Þetta fer ekki saman. Maður refsar ekki til bættrar hegðunar. Það hjálpar ekki jarðarsettum hópum eins og fíkniefnaneytendum að sækjast í vasa þeirra og taka peninga,“ sagði Björt.
Frétt mbl.is: Hætt verði við að fangelsa fyrir neysluskammta
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, svaraði fyrirspurn hennar á þann veg að hann teldi heldur ekki neina lausn að reyna að sekta fólk út úr fíkn. „Ég held að það sé enginn sem telur að það sé einhver lausn í málefnum fíkla,“ sagði Kristján Þór.
Hann tók fram að hann vilji bíða eftir umræðu um tillögurnar á Alþingi áður en afstaða verður tekin gagnvart þeim.
„Ég vonast eftir því að sú umræða getið farið fram sem fyrst. Við höfum beðið tiltölulega lengi eftir afrakstri þeirrar vinnu,“ sagði hann og átti við tillögur nefndarinnar.