Bjarni Benediktsson með örugga forystu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með örugga forystu í …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með örugga forystu í fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherrra er efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi þegar talin hafa verið 1008 atkvæði. Alls greiddu 3.154 atkvæði í prófkjörinu. Bjarni er með 853 atkvæði í fyrsta sæti af þeim talin hafa verið. 

Jón Gunnarsson þingmaður er í öðru sæti með 412 atkvæði. Í þriðja sæti er Óli Björn Kárason ritstjóri með 432 atkvæði í. Vilhjálmur Bjarnason þingmaður er í fjórða sæti með 329 atkvæði.

Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi og varaþingmaður er í fimmta sæti með 378 atkvæði og Bryndís Haraldsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar er í 6. sæti með 429 atkvæði. 

Aðrir frambjóðendur hlutu færri atkvæði, þar á meðal Elín Hirst þingmaður sem sóttist eftir 2.-3. sæti. 

Engin kona í fjórum efstu sætunum

„Ég er þakklátur fyrir þennan stuðning. Þetta er hátt í heildarþátttökuna í Reykjavíkur kjördæmunum sem er sæmilega viðunandi,“ sagði Bjarni Benediktsson í samtali við fréttamann í kvöldfréttum Rúv.

Hann lýsti yfir vonbrigðum með að engin kona er í fjórum efstu sætum listans eftir fyrstu tölur. „Miðað við þessar tölur erum við ekki með konu ofarlega á listanum. Við þurfum að ræða það hvernig við ætlum að koma til móts við það í framtíðinni að við viljum koma jafnt til móts við konur og karla.“

Fyrstu tölur úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi voru lesnar upp …
Fyrstu tölur úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi voru lesnar upp í Valhöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæbærg

Tekur fyrstu tölum af karlmennsku

Elín Hirst sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með fyrstu tölur. „Ég hef reynt að leggja mig alla fram í mínu starfi en það virðist ekki vera það sem kjósendur vilja. En ég tek þessu með karlmennsku,“ sagði Elín í samtali við fréttamann í kvöldfréttum Rúv. 

Fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is. Búast má við næstu tölum upp úr klukkan 20. 

Frambjóðendur hlusta á fyrstu tölur í Valhöll í kvöld.
Frambjóðendur hlusta á fyrstu tölur í Valhöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Uppfært klukkan 20:07

Aðrar tölur úr Suðvesturkjördæmi hafa verið birtar og er staðan óbreytt. Talin hafa verið 1993 atkvæði. 

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra er í fyrsta sæti með 1643 atkvæði, Jón Gunnarsson alþingismaður er í öðru sæti með 777 atkvæði og Óli Björn Kárason ritstjóri er í þriðja sæti með 801 atkvæði. 

Í fjórða sæti er Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður með 639 atkvæði, Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi og varaþingmaður er í fimmta sæti með 688 atkvæði og Bryndís Haraldsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar er í sjötta sæti með 818 atkvæði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert