Býður sig fram gegn Sigmundi Davíð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eggert Jóhannesson

Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, gefur kost á sér til embættis formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta staðfestir Sveinbjörn í samtali við mbl.is. en formannskjör fer fram á flokksþingi Framsóknar sem er boðað dagana 1.-2. október.

„Verði ekki aðrir til þess að keppa við Sigmund þá ætla ég að gera það,“ segir Sveinbjörn en hann telur nauðsynlegt að að félagar Framsóknarflokksins fái tækifæri til að kjósa um þá stöðu sem upp er komin.

Sveinbjörn Eyjólfsson.
Sveinbjörn Eyjólfsson. Ljósmynd/aðsend

„Hann verður að minnsta kosti að fá endurnýjað umboð,“ segir Sveinbjörn, spurður hvort hann telji flokknum vera fyrir bestu að einhver annar en Sigmundur gegni forystu. „Ég svona met stöðuna þannig, og þá uppákomu sem varð í kringum hans persónu, þá sé nauðsynlegt að ganga úr skugga um hversu mikinn stuðning hann hefur, hversu mikið traust er eftir,“ segir Sveinbjörn. „Mér finnst að á flokksþingi þá verðum við að fá tækifæri til þess að kjósa um þessa stöðu.“

Sveinbjörn lýsti því yfir á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fram fór á Akureyri í gær að hann hygðist fara gegn sitjandi formanni með þeim fyrirvara að enginn annar sem kalla mætti „öflugri frambjóðanda“ færi fram, „þá mun ég nú mjög fljótlega draga mig í hlé,“ segir Sveinbjörn.  

„Ég vil bara tryggja það að á flokksþinginu þá verði tekist á um þetta, og menn verði þá bara að standa fyrir sínu,“ segir Sveinbjörn. „Menn hafa þá að minnsta kosti tækifæri til þess að lýsa yfir stuðningi við hann eða skila auðu eða að kjósa mig. Það verður bara að koma í ljós; er þessi stuðningur til staðar?“

Sveinbjörn starfar sem fyrr segir sem forstöðumaður nautastöðvar Bændasamtaka Íslands og er búsettur á Hvanneyri. Sveinbjörn hefur verið virkur í Framsóknarflokknum í um 40 ár, var meðal annars formaður ungra framsóknarmanna í Hafnarfirði þegar hann var 16-17 ára, setið í sveitastjórn og komið víða við í starfi flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert